Fréttir

Sigur hjá drengjaflokknum í Reykjavík

Körfubolti | 02.10.2010 Góður sigur í höfn hjá KFÍ drengjum, sem sigruðu ÍR með 73 stigum gegn 59 stigum heimamanna. Leikurinn hófst með látum hjá okkar drengjum sem sýndu klærnar strax í byrjun drifnir áfram af Sigmundi og Gaut sem skoruðu fyrstu stigin og náðum við 9-1 starti. Strákarnir héldu áfram þessum dampi og spiluðu frábæra vörn og fóru með 20 stiga forskot til hálfleiks. Þegar þarna var komið voru allir strákarnir tólf búnir að koma við sögu. Og allir að gera fína hluti.

En eitthvað héldu strákarnir að það þyrfti ekkert að hafa fyrir seinni hálfleik. Við töpuðum boltum og fengum óþarfa villur og ÍR komst réttilega í takt við leikinn og náðu að minnka muninn niður í 10 stig. En við spýttum í lófana og unnum verðskuldaðan 14 stiga sigur og lokatölur eins og áður kom fram 73-59 og annar sigur okkar á Íslandsmótinu í drengjaflokk staðreynd.

Bestir í dag voru Sigmundur, Leó, Hermann og Gautur. Sigmundur spilaði stöðu leikstjórnanda og komst mjög vel frá sínu. hann skoraði 15 stig og var með 9 stoðsendingar og nokkur góð fráköst og sýndi að hann getur þetta allt ef hann "kemur með það "  Leó sýndi að hann er á öðru hraðatempói þegar hann vill og stal boltum hægri, vinstri. hann skoraði 20 stig og stóð sig vel.  Hermann var grimmur í vörninni og lét finna fyrir sér, hann endaði með 10 stig.  Gautur er að sýna framfarir í hverjum leik og skoraði 9 stig og reif niður einhver 8 fráköst. Hann er farinn að "feika" vel og koma sér að körfunni og notar hæðina vel.  Ingvar kom grimmur af bekknum og sleit niður fráköst af hringnum. hann skoraði 7 stig og var óheppin að setja ekki fleiri körfur. Hann er búinn að vera meiddur og verður öflugur þegar hann er orðinn heill.  Óskar er að komast í sitt form og skoraði 6 flott stig.  Andri kom inn og setti strax körfu og reif niður nokkur fráköst.  Hákon er "monster" og þjappaði strákunum saman ásamt Nonna og Guðna og spiluðu þeir þremenningar góða vörn og enduðu með 2 stig hver.  Sævar Þór var með 2 stig, en fór hamförum í fráköstum og við vitum hvernig skytta hann er þó að skotin hafi ekki dottið niður í dag. Hann þarf bara að taka skotin meira á fyrsta tempói og það mun hann gera.  Jói Friðriks kom inn og lét strax að sér kveða. Hann var að spila sinn fyrsta leik með okkur og stóð sig vel og verður frábær viðbót inn í liðið.

Ánægjulegast í dag var að sjá hve liðsheildin er góð og leikgleðin skín af strákunum. Það er greinilegt að þetta er allt að koma.  Við eigum svo leik á morgun gegn sterku liði Hauka og er hann að Ásvöllum kl. 13.00.  Við hvetjum alla Vestfirðinga nær og fjær sem vettlingi geta valdið, til þess að koma í Hafnarfjörðin og hvetja strákana okkar áfram.

Strákarnir biðja um kveðjur heim og óskum við stelpunum til hamingju með þeirra sigur í dag.

Deila