Fréttir

Sigur í mjög kaflaskiptum leik

Körfubolti | 16.10.2011
1 af 3

Það var ekki hár gæðastuðull á leiknum á Jakanum í kvöld. Bæði lið greinilega að byrja "sesonið" og mistökin í bílförmum. Þetta hafðist þó og það skiptir öllu. Baráttan var til staðar hjá báðum liðum og í nokkur andartök glæddist yfir mönnum og góð tilþrif sáust hjá báðum liðum.

 

Það var jafnt fram eftir fyrri hálfleik, en Hamar fór þó með tvö stig í gróða í hálfleik. Staðan 30-32 og fór um suma áhorfendur. En í seinni hálfleik fór vörnin hjá Pétri þjálfara og lærissveinum hans að herðast og staðan eftir þriðja leikhluta 64-49 og menn að berjast fyrir sínu. Áfram hélt svo kappið og að lokum var staðan 79-68 og tvö góð stig í hús.

 

Það er greinilegt að liðin eru bæði að finna sig og sitt tempó. Í liði Hamars eru skemmtilegir strákar leiddir áfram af Lalla þjálfara sem skipti vel inn á og fengu allir tækifæri að sýna sitt andlit. Sumir skiluðu sýnu vel og var þar fremstur á meðal jafningja Louie Kirkman sem endaði með 24 stig og 8 fráköst. Bjarni Lárusson var einnig mjög öflugur þó að hann hafi ekki skorað nema 5 stig þá barðist hann eins og ljón báðum megin á vellinum og tók 13 fráköst og gafst aldrei upp. Terrence Worthy leikstjórnandi Hamars var einum of mikið með boltann í drippli og hægði hann á leik drengjanna frá gerði hveranna. Hann er þó klárlega góður og þarf bara að láta hann dreifa boltanum betur. Svavar var ekki að finna sig og Raggi á nokkuð í land, enda að stíga upp úr erfiðum meiðslum, en hann á eftir að verða erfiður sem og Svavar. Stefán var seigur og Bjartmar hefði að ósekju mátt spila meira. En Hamar kemur sterkt til leiks í næsta leik og á eftir að gera fínan vetur.

 

Hjá KFÍ voru menn ill skárri. Það væri ósanngjarnt að segja að við hefðum átt stórleik og á ekkert að skafa af þar. EN menn börðust mjög vel og á það við um alla sem inn á fóru. Craig stjórnaði vel var með 17 stig, 4 fráköst, 6 stoðir, og 1 risa varið skot, Jón Hrafn átti fína spretti með 13 stig, 3 fráköst og 3 stolna, Chris þurfti að hafa fyrir sínu stæði en endaði með 14 stig, 16 fráköst, 4 stolna og 3 varin, Ari var traustur með 15 stig (3/4 þriggja) og 5 fráköst, Kristján Andrés var seinn í gang en þegar hann komst í sinn takt var hann góður og endaði með 12 stig,  Siggi Haff barðist eins og tuska í vindi og spilaði glimrandi góða vörn, Hlynur var að standa sig og skoraði 4 stig og stjórnaði af röggsemi, Sævar átti fína innkomu, setti 2 stig og spilaði fína vörn.

 

Lið KFÍ er með góðan mannskap og eiga mikið inni. Það er hins vegar ekki hægt að dæma út frá einum leik og hefur undirbúningstímabilið ekki verið eins og við ætluðum okkur og æfingaleikir fáir. En þetta verður skemmtilegur vetur. Menn eru tibúnir í vinnuna sem er framundan og er mikil tilhlökkun hjá þeim sem og áhorfendum sem fjölmenntu á Jakann í kvöld.

 

Góðir dómarar í kvöld voru þeir Georg Andersen og Jón Þór Eyþórsson.

 

Við þökkum fyrir frábæran stuðning og sérstakar þakkir til MÍ sem koma hjálpuðu okkur mikið í kvöld.

Deila