Fréttir

Sigur í síðasta leik fyrir jól

Körfubolti | 15.12.2013
Óskar var frábær í kvöld og setti 18 stig.
Óskar var frábær í kvöld og setti 18 stig.

KFÍ og Valur mættust í kvöld á Jakanum á Ísafirði. Bæði lið hafa verið í botnbaráttunni í vetur en fyrir leikinn var KFÍ í níunda sæti með 4 stig á meðan Valur var í því tólfta með 2 stig.

 

KFÍ opnaði leikinn á 7-0 áhlaupi áður en Chris Woods náði að svara fyrir Valsara og leiddu þeir 18-14 í lok fyrsta leikhluta.

 

Jafnræði var með liðunum allan annan leikhluta þrátt fyrir að KFÍ væri iðulega skrefi framar en Ísfirðingar leiddu 43-34 í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik skildu svo leiðir. Valsmenn réðu ekkert við Mirko Stefán Virijevic í þriðja leikhluta og hann gerði það sem hann vildi undir körfunni og skoraði 11 stig í leikhlutanum.

 

Valsmenn misstu svo Rúnar Inga Erlingsson útaf með 5 villur strax á upphafssekúndum fjórða leikhluta og enginn steig upp í hans stað. Mest náðu Ísfirðingar 21 stiga forustu í loka fjórðungnum og enduðu með að sigra örugglega 85-68.

 

Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir KFÍ í botnbaráttunni en með honum er liðið komið 2 stigum á undan Skallagrímur og ÍR sem bæði töpuðu í kvöld. Útlitið er hins vegar ekki bjart hjá Valsmönnum en þeir eru enn sem fyrr neðstir með einungis 1 sigur í 11 leikjum.

 

Mirko Stefán heldur áfram að skila frábærum tölum en hann skoraði 23 stig og tók 16 fráköst en Jason Smith kom næstur með 19 stig of 14 stoðsendingar. Óskar Kristjánsson steig svo hressilega upp og setti 18 stig, öll úr þristum, en fyrir leikinn hafði hann sett samtals 12 stig í 8 leikjum.


Hjá Val var Chris Woods allt í öllu en hann skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Ísfirska tröllið Birgir Björn Pétursson kom honum næstur með 17 stig og Oddur Ólafsson bætti við 10 stigum.

 

Tölfræði leiksins

 

Deila