Fréttir

Sigur í tvíframlengdum leik

Körfubolti | 04.11.2012
Kristján Pétur er að koma aftur með látum. Mynd: Sumarliði Ásgeirsson
Kristján Pétur er að koma aftur með látum. Mynd: Sumarliði Ásgeirsson

KFÍ mætti Hamar í Lengjubikar karla í Hveragerði í kvöld. Liðin voru jöfn fyrir leikinn í 2-3. sæti í B-riðli keppninnar en Hamar kom gríðarlega á óvart í síðasta leik er þeir lögðu KR að velli 80-83.

 

Hvergerðingar byrjuðu leikinn betur og komust mest 7 stigum yfir, 20-13, um miðbik fyrsta leikhluta og leiddu í lok hans 30-28. Momcilo Latinovic fór mikinn í leikhlutanum og skoraði 9 stig en Mirko Stefán bætti við 7 stigum.

 

KFÍ byrjaði annan leikhluta vel og skoraði 8 stig á móti 2 stigum Hvergerðinga á upphafsmínútum hans. Hins vegar gekk KFÍ ekkert að skora það sem eftir lifði leikhlutans og skoraði Hamar meðal annars 10 stig á móti engu frá Ísfirðingum á síðustu 2:30 mínútu fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var því 46-40 Hamar í vil.

 

Í seinni hálfleik var það sama upp á teningnum og náðu Hamarsmenn mest 9 stiga forustu í byrjun fjórða leikhluta. KFÍ byrjaði þó að saxa á forskotið og kemur Kristján Pétur Ísfirðingum yfir, 73-75, með þriggja stiga skoti þegar um fimm mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma. Sú forusta hélst þó stutt og náðu Hamarsmenn forustu fljótlega aftur. Þeir fóru þó illa að ráði sínu í lokinn en þeir brenndu af 3 af 6 vítum sínum á lokamínútunum og gáfu því KFÍ séns á að jafna. Og það var Mirko Stefán sem var hetja KFÍ í þetta sinn en hann jafnaði leikinn, 80-80, með þriggja stiga körfu þegar nokkrar sekúndur voru eftir og sendi leikinn í framlengingu.

 

Í lok fyrri framlengingarinnar komust Hamarsmenn 3 stigum yfir, 95-92, þegar nokkrar sekúndur voru eftir með körfu og víti frá Jerry Hollis. Kristján Pétur Andrésson var þó ekki á þeim buxunum að fara tómhentur heim og fiskaði þrjú víti eftir að brotið var á honum í þriggja stiga skoti. Hann fór svellkaldur á línuna og setti öll þrjú vítin niður og því þurfti að framlenga í annað sinn.

 

Í annari framlengingunni náði KFÍ strax forustunni og lét hana aldrei af hendi. Lokasekúndurnar voru þó æsispennandi en B.J. Spencer kláraði leikinn af vítalínunni og 106-109 sigur KFÍ staðreynd.

 

Stigahæstur hjá KFÍ var Momcilo Latinovic með 26 stig en næstir komu Kristján Pétur með 22 stig, Mirko Stefán með 20 stig og 10 frk. B.J. Spencer bætti svo við19 stigum og Jón Hrafn 10.


Hjá Hamar var Jerry Hollis stigahæstur með 31 stig og 11 fráköst en Örn SIgurðarson kom næstur með 28 stig og 12 fráköst.

Deila