Fréttir

Sigur og tap hjá B-liðinu á helginni

Körfubolti | 11.12.2012
Dóri Svenna var ekki með en hefur lofað að fara að mæta á æfingar.
Dóri Svenna var ekki með en hefur lofað að fara að mæta á æfingar.

B-lið KFÍ  hélt út á land og mætti Reykjavíkurstórveldinu KR og Vesturlandsstórveldinu ÍA í B-deild karla á helginni. Fyrri leikurinn var í DHL-höllinni á móti KR-b en þessi lið höfðu einmitt mæst mánuði áður í Jakanum á Ísafirði þar sem borgarbörnin sluppu með 4 stiga sigur eftir æsispennandi leik. Ljóst var að þeir ætluðu ekki að taka neina sénsa í leiknum og mættu því með A-liðsmennina Svein Blöndal og Ágúst Angatýsson sem eru Ísfirðingum vel kunnir.

 

Blöndalinn lék með Ísfirðingum um tveggja ára skeið í byrjun aldarinnar við góðan orðstír en Þingeyringurinn Ágúst steig sín fyrstu skref í körfunni með KFÍ auk þess sem hann bjargaði Ísfirðingum frá falli úr úrvalsdeild vorið 2004. Þessir tveir reyndust Ísfirðingum erfiðir í leiknum enda uppskáru KR-ingar stórsigur, 100-68. Það er óþarfi að taka fram að þar sem um tap var að ræða að þá fá dómararnir falleinkun, burtséð frá frammistöðu þeirra í leiknum.

Á sunnudaginn mætti KFÍ svo ÍA á Jaðarsbökkum á Akranesi. Einungis sjö Ísfirðingar mættu á svæðið, restin vafalaust ennþá að drekkja sorgum sínum eftir rasskellinguna daginn áður, en fleiri þurftu þeir ekki að vera því dómararnir voru æðislegir í leiknum og öruggur 19 stiga sigur, 58-77, því uppskera dagsins.

Stigaskor einstakra leikmanna úr leikjunum eru ekki fyrir hendi þar sem leikmenn liðsins eru ófærir um einföldustu hluti, eins og að muna eftir að taka leikskýrsluna með sér heim.

 

KFÍ-b heldur því inn í jólavertíðina með 1 sigur í 4 leikjum og situr í 5. sæti B-deildarinnar. Fjögur efstu liðin spila í úrslitakeppninni í vor.

Deila