Fréttir

Sjö lið yngri flokka á faraldsfæti

Körfubolti | 27.01.2016

Það verður mikið umleikis í yngri flokkum KFÍ (Vestra) um helgina því heil sjö lið eru á leið suður til keppni. Báðir 8. flokkar félagsins keppa í þriðju umferð Íslandsmótsins og spila báðir í Reykjavík auk þess sem Póstmót Breiðabliks fer fram í Kópavogi um helgina og þangað fara fimm lið á okkar vegum.

 

Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með krökkunum í 8. flokki en strákarnir keppa í Hertz-hellinum hjá ÍR-ingum í Seljahverfi og mæta þar gestgjöfunum ásamt Ármanni, Breiðablik og Stjörnunni. Strákarnir okkar hafa staðið sig afar vel í vetur, unnið sig upp um tvo riðla og spila nú í B-riðli. Þeir hafa enn ekki tapað leik á mótum vetrarins en vænta má að nú þyngist róðurinn nokkuð. Liðið er skipað strákum fæddum 2002 og 2003 frá Ísafirði, Bolungarvík og Ströndum. Leikir okkar manna eru kl. 15 og 17 á laugardag o 11.15 og 13.15 á sunnudag undir stjórn Hákons Ara Halldórssonar.

 

Stelpurnar í 8. flokki byrjuðu flestar að æfa körfu í haust og vetur. og er gaman að geta þess að liðið er skipað stelpum frá Ísafirði, Súgandafirði og Súðavík. Þær hófu keppni í C-riðli þegar ein umferð var liðin af Íslandsmótinu og stóðu sig sérlega vel á fyrsta mótinu, unnu tvo leiki, töpuðu einum og urðu í öðru sæti riðilsins. Um helgina sækja þar Valsstúlkur heim að Hlíðarenda og mæta þar einnig KR, Njarðvík-b og Tindastóli/Þór Akureyri. Allir leikirnir fara fram á sunnudag. Stelpurnar okkar hafa tekið miklum framförum á æfingum upp á síðkastið undir stjórn Nökkva Harðarsonar og væntir félagið mikils af þeim um helgina.

 

Á Póstmótið sendum við fimm flott lið, bæði stúlkna og drengja, en alls eru 23 börn úr okkar röðum skráð til leiks í þremur stúlknaliðum og tveimur drengjaliðum. Þetta eru krakkar fæddir 2004-2009 og eru sumir þeirra að fara á sitt allra fyrsta körfuboltamót. Póstmótið er ekkert smámót því 176 lið eru skráð til keppni. Það verður því væntanlega handagangur í öskjunni í Smáranum í Kópavogi þar sem mótið fer fram bæði laugardag og sunnudag.

 

Við hvetjum alla sanna stuðningsmenn KFÍ á höfuðborgarsvæðinu til að kíkja á krakkana okkar og hvetja þau til dáða.

Deila