Áttundu Körfuboltabúðir KFÍ, og þær stærstu frá upphafi, verða settar á þriðjudagskvöldið kemur, 31. maí. Von er á ríflega 140 iðkendum til Ísafjarðar á aldrinum 10-16 ára, og koma krakkarnir víðsvegar að af landinu. Lætur nærri að þetta sé um 50% aukning frá síðasta ári. Búðirnar standa frá þriðjudegi til sunnudags og er von á vaskri sveit þjálfara allsstaðar að úr heiminum sem verða undir stjórn Finns Freys Stefánssonar, þjálfara karlaliðs KR - Íslandsmeistaranna 2016. Hátt í 20 þjálfarar munu komu að búðunum að þessu sinni, ýmist sem þjálfarar allan tímann eða sem gestir í styttri tíma.
Til viðbótar aðalbúðunum fara fram svokallaðar "Grunnbúðir" sem einkum eru ætlaðar börnum í 1.-3. bekk og fara þær fram á Austurvegi fimmtudag til laugardags. Þær eru hugsaðar sem forsmekkur að búðunum stóru og er æft í í tæpa klukkustund á dag í þrjá daga.
Að venju er heimavist Menntaskólans á Ísafirði nýtt undir iðkendur og fylgdarlið þeirra og svo er mötuneytið góða á sínum stað, undir stjórn Hugljúfar Ólafsdóttur, meistarakokks. Á þriðja hundrað manns tengjast búðunum með einum eða öðrum hætti í ár; iðkendur, þjálfarar, foreldrar og skipuleggjendur og aðrir sem leggja okkur lið. Búðunum hefur því heldur betur vaxið fiskur um hrygg frá því að þeim fyrstu var hleypt af stokkunum árið 2009. Þá voru iðkendur 50 talsins og fimm þjálfarar en í þeim búðum var grunnurinn lagður og hefur skipulagi þeirra verið fylgt vel eftir alla tíð. Vegna aukinnar aðsóknar í ár verður dagskrá búðanna með nokkuð breyttu sniði frá fyrri árum en það er von framkvæmdastjórnar búðanna að þær breytingar eigi eftir að falla í góðan jarðveg.
Helstu styrktaraðilar búðanna í ár eru Íslandssaga, Arna í Bolungarvík, Samkaup, Bakarinn og Hótel Ísafjörður.
Framkvæmdastjórn búðanna skipa: Guðni Guðnason, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir, Ingólfur Þorleifsson, Guðlaug Sigurjónsdóttir og Birna Lárusdóttir, sem jafnframt er framkvæmdastjóri búðanna.
Deila