Fréttir

Stefnan sett á meistaraflokk kvenna

Körfubolti | 17.10.2017
Verða þessar flottu Vestrastelpur grunnurinn að nýjum meistaraflokki kvenna?
Verða þessar flottu Vestrastelpur grunnurinn að nýjum meistaraflokki kvenna?
1 af 2

Stjórn Kkd. Vestra og barna- og unglingaráð vinna nú markvisst að því að félagið tefli fram meistaraflokki á ný. Allt bendir til þess að innan örfárra ára verði kominn góður grundvöllur fyrir endurvakningu meistaraflokks kvenna félagsins, en hann var síðast starfræktur vetur 2014-2015. Í gærkvöldi stóð félagið fyrir skemmtilegum spjallfundur í Menntaskólanum á Ísafirði og var það liður í undirbúningi verkefnisins.

Stór hópur stúlkna er að ganga upp yngri flokka félagsins og mun hluti þeirra keppa í Stúlknaflokki á næstu leiktíð. Félagið teflir fram liðum í fimm aldursflokkum Íslandsmóts í vetur, alls um fjörutíu stelpur, og hafa liðin sjaldan eða aldrei verið fleiri.

Í gærkvöldi stóð deildin fyrir Stelpuspjalli þar sem kveniðkendur Vestra í 6.-10. bekk komu saman ásamt foreldrum sínum og hlýddu á fyrirlestra um framtíðarsýn félagsins, liðsheild og hvernig maður byggir upp karakter í liði. Öllu var svo slúttað með skemmtilegum leikjum og pizzuveislu.

Sérstaka athygli vakti fyrirlestur sem Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, liðsmaður í 10. flokki, flutti en hún sagði frá þátttöku sinni á ráðstefnunni "Sýnum karakter" sem haldin var af ÍSÍ og UMFÍ í september síðastliðnum. Þar var Dagbjört Ósk fulltrúi KKÍ en flestir ráðstefnugestir voru á aldrinum 13-25 ára. Á vefslóð Sýnum karakter er að finna heilmikið efni sem nýtist bæði þjálfurum og iðkendum til uppbyggingar í íþróttum og lífinu almennt.

Deila