Fréttir

Stelpurnar börðust við bestu lið landsins

Körfubolti | 22.02.2016
Stund milli stríða hjá KFÍ stelpunum í firnasterkri umferð í A-riðli Íslandsmótsins í 7. flokki.
Stund milli stríða hjá KFÍ stelpunum í firnasterkri umferð í A-riðli Íslandsmótsins í 7. flokki.
1 af 2

Sjöundi flokkur stúlkna KFÍ (Vestra) háði harða baráttu í Grindavík um helgina þar sem fram fór þriðja umferð í A- riðli Íslandsmótsins. Stúlkurnar unnu sig upp úr B-riðli hér heima í nóvember og voru því að takast á við fjögur af bestu liðum landsins nú um helgina. Aðeins munaði þremur stigum á því að þær næðu að halda sæti sínu í riðlinum en leikar fóru þannig að þær keppa aftur í B-riðli í næstu umferð sem er næst síðasta umferð mótsins.

 

Fyrsti leikur mótsins var við heimastúlkur en þær eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Leikurinn var í járnum í byrjun og komust KFÍ stúlkur í 4-0 en þá settu grindvísku stelpurnar í lás og hlupu agaðan sóknabolta og náðu fram öruggum sigri, 17-62.

 

Annar leikurinn á laugardeginum var á móti Keflavík og mættu stelpurnar okkar af krafti inn í leikinn, búnar að hrista spennuna og stressið úr sér eftir leikinn við Grindavík og uppskáru hörkuleik við Keflavík. Keflavíkingar voru þó alltaf 4-6 stigum yfir þar til aðeins voru eftir þrjár mínútur af 3. leikhluta. Þá náðu KFÍ stúlkur að minnka muninn niður í tvö stig, 16-18. Keflavík tók þá leikhlé og endurskipulagði leikinn sinn. Það virkaði svona ljómandi vel því þær náðu að loka gjörsamlega á lið KFÍ sem skoraði ekki meira í þessum leik, lokastaðan 16-33.

 

Þriðji leikurinn, sem fram fór á sunnudag, var á móti Stjörnunni úr Garðabæ og var það úrslitaleikur um hvort liðanna myndi fara niður úr riðlinum. Leikurinn var í járnum allan leiktímann og voru áhorfendur farnir að naga neglurnar uppí stúku, svo mikið var stressið. Liðin skiptust á að halda forystu fyrstu mínúturnar en þegar flautað var til hálfleiks skildu aðeins tvö stig liðin að, 10-12. Seinni hálfleikur var ekki minna spennandi þar sem liðin skiptust á að spila góða vörn og var lítið skorað. Eftir mikla baráttu tapaðist leikurinn með þremur stigum, 23-26, en þetta var klárlega leikur sem hefði getað dottið báðum megin. Fjórði og síðasti leikurinn var svo á móti gríðarlega sterku liði Njarðvíkur og var sá leikur algjör einstefna. KFÍ stúlkurnar máttu sín lítils gegn Njarðvíkingunum sem sigruðu frekar auðveldlega 16-67.

 

Þótt sigrarnir hafi ekki fallið KFÍ-megin þessa helgi er engum blöðum um það að fletta að félagið hefur á að skipa firnasterkum hópi stúlkna í þessum aldurshópi sem náð hefur að blanda sér í baráttu sterkustu liða landsins. Framfarirnar eru miklar og með auknu úthaldi, tækni og góðu utanumhaldi verða þessum hópi allir vegir færir í framtíðinni. Þær voru frábærar jafnt innan sem utan vallar og félaginu sínu til mikils sóma.

 

Rétt er að geta þess að fyrirtæki hér í bæ eru einstaklega dugleg við að styrkja starf yngri flokka félagsins, ekki síst þegar farið er í ferðir sem þessar þar sem þörf er á mikilli næringu. Bakaríin hafa alla tíð veitt mikinn stuðning og svo eru bæði heildsölur og Samkaup drjúgir styrktaraðilar. Að þessu sinni voru það Samkaup og Gamla Bakaríið sem lögðu hópnum lið og þakkar félagið kærlega fyrir veittan stuðning.

Deila