Fréttir

Stelpustuð í Smáranum

Körfubolti | 11.10.2017
Stelpurnar náðust á mynd á útleið úr Smáranum á sunnudag en þá var ein þeirra horfin á braut.
Stelpurnar náðust á mynd á útleið úr Smáranum á sunnudag en þá var ein þeirra horfin á braut.

Minnibolti eldri stúlkna í Vestra fæddar 2006 kepptu á fyrsta Íslandsmóti vetrarins um helgina. Mótið fór fram hjá Breiðablik í Smáranum og tefldi Vestri fram tveimur liðum undir stjórn Nökkva Harðarsonar. þjálfara og meistaraflokksmanns. Mótið tókst í alla staði vel og tóku stelpurnar virkilega á honum stóra sínum gegn miserfiðum andstæðingum.

Stelpurnar unnu fjóra af átta leikjum sínum og hafa tekið miklum framförum frá síðustu leiktíð. Þær spiluðu grimman varnarleik og sýndu mikla baráttu. Það var afar skemmtilegt að sjá þær spila saman og náðu þær mörgum virkilega flottum körfum eftir skemmtilegt samspil. Þetta eru jákvæðar og áhugasamar stelpur. 

Fjölmennt var í aðdáendahópi stelpnanna og frábært lið af foreldrum með í för. Tíundi flokkur drengja náði að fylgjast með fyrstu leikjunum en þeir voru einmitt á Íslandsmóti í næsta bæ, Garðabæ, þessa sömu helgi.

Þetta var í alla staði skemmtilegt og krefjandi mót, sem stelpurnar munu taka með sér í reynslubankann. Alls eru Íslandsmótin í minnibolta fimm talsins í vetur en það nægir að mæta í þrjú þeirra til að halda sér inni í mótinu. Stefnan er þó tekin á öll fimm mótin nema veður og óviðráðanlegar aðstæður hafi þar áhrif á.

Deila