Fréttir

Stigaveisla í Stykkishólmi!

Körfubolti | 25.10.2010
Nebojsa Knezevic  (Ljósmynd: H.Sigm)
Nebojsa Knezevic (Ljósmynd: H.Sigm)
Leik KFÍ og Snæfells var að ljúka fyrir stundu í Hólminum og má segja að sóknarleikurinn hafi fengið að njóta sín í kvöld.  Í stuttu máli sigruðu Snæfell með 125 stigum gegn 118 stigum KFÍ.  Íslandsmeistararnir í Snæfelli byrjuðu afar sterkt og unnu fyrsta leikhluta 43:26 og alveg ljóst að KFÍ menn voru ekki alveg upp á sitt allra besta í þessum fjórðungi, en það átti heldur betur eftir að breytast.

KFÍ vann annan fjórðung 36:37 og staðan í hálfleik var 79:63!  Mörgum þætti nú nóg um þessar tölur að loknum fjórum leikhlutum en allir á gólfinu voru greinilega á öðru máli og ljóst að einhver stigamet væru í hættu.  Síðari hálfleikur minnti að sumu leyti á síðasta leik, gegn ÍR, en þá unnu okkar menn upp mikið forskot á ævintýralegan hátt og allt virtist jafnvel stefna í endurtekningu á því.  KFÍ unnu nefnilega þriðja leikhluta 23:29 og í fjórða leikhluta var staðan 114:114 þegar 4:14 min voru til leiksloka.  Þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra og lönduðu sigrinum.  KFÍ vann þó fjórða leikhluta 23:26.  Munurinn var einfaldlega of mikill til þess að jafn leikreynt lið og Snæfell er, gæfi leikinn frá sér. Atlaga KFÍ í lokaleikhlutanum var þó hörð og sýndi flotta baráttu, og ástæða er til þess að hrósa strákunum fyrir það.  

Hinn smekkvísi leikstjórnandi Snæfellinga, Sean Burton var í veisluskapi og endaði stigahæstur í leiknum með 29 stig og 6 stoðsendingar.  Það er ekki oft sem leikmenn setja 8 af 11 reyndum þriggja stiga skotum (73%!), en það mun ekki vera óþekkt á þessum bæ.  Þá voru tölurnar hjá Pálma Sigurgeirssyni ekkert slor heldur, en hann skilaði 25 stigum í hús og var með flott framlag í leiknum.  Ryan Amaroso reif niður 10 fráköst og krækti sér í 24 stig í þokkabót.  Ef þetta var ekki nóg, þá var hann Jón Ólafur með 21 stig og 8 fráköst.  Að lokum má geta þess að gamall vinur okkar, Atli Hreinsson er að spila vel þessa dagana og fann sig ágætlega gegn félögum sínum frá því í fyrra.  

Í liði KFÍ voru 6 leikmenn með >10 stig og er ekki hægt að kvarta undan sóknarleik liðsins. Nebojsa Knezevic var stigahæstur með 27 stig í kvöld og hefur stimplað sig rækilega inn.  Carl Josey kveikti aftur stigavélinni sinni og var með 26 stig og 7 fráköst. Craig Schoen lenti í nokkrum vandræðum með villur en skoraði engu að síður 24 stig, tók 7 stoðsendingar og stal bolta 5 sinnum.  Aðrir stóðu vel fyrir sínu og börðust eins og ljón á vellinu, ljóst að KFÍ er með hörkulið sem er til alls líklegt í vetur. Titlar vinnast ekki eingöngu með sóknarleik og ef viltustu draumar KFÍ aðdáenda eiga að rætast, er ljóst að þétta verður vörnina.

KFÍ liðið og fylgdarmenn eru nú á heimleið og óskum við þeim góðrar ferðar.  Á morgun tekur við nýr dagur og undirbúningur fyrir næsta leik er þegar hafinn.  Stjarnan kemur í heimsókn til okkar á föstudagskvöldið kl. 19:15.  Þeir unnu leik sinn gegn Njarðvík í kvöld (91:81) og ætla sér vafalítið að hefna ófara sinna gegn okkur í Lengjubikarnum.  Áhorfendur mega búast við hörkuleik og háspennu eina ferðina enn!

HS Deila