Fréttir

Stór hópur á leið á Sambíómótið

Körfubolti | 01.11.2019
Löng hefð er fyrir þátttöku vestfirskra körfuboltakempna á Sambíómótinu. Hér má sjá Dagnýju Finnbjörnsdóttur, þjálfara, með eitt liðanna sem tók þátt í Sambíómótinu í fyrra. Sex Vestralið eru á leið á mótið í ár.
Löng hefð er fyrir þátttöku vestfirskra körfuboltakempna á Sambíómótinu. Hér má sjá Dagnýju Finnbjörnsdóttur, þjálfara, með eitt liðanna sem tók þátt í Sambíómótinu í fyrra. Sex Vestralið eru á leið á mótið í ár.

Um 30 iðkendur Kkd. Vestra á aldrinum 6-9 ára, og enn fleiri aðstandendur, eru nú á leið á hið árlega stórmót Sambíómótið, sem fram fer í Grafarvogi í Reykjavík um helgina. Gestgjafinn er íþróttafélagið Fjölnir en áratugalöng hefð er fyrir þessu skemmtilega móti, sem ætlað er yngstu aldurshópum körfuboltans. Hafa vestfirskir iðkendur sótt það í fjölda ára og margir stigið þar sín fyrstu spor í keppni. Um 700 iðkendur eru skráðir til leiks í ár í 139 liðum.

Vestri teflir fram sex liðum að þessu sinni, fjórum drengjaliðum og tveimur stúlknaliðum. Leikið er í þriggja manna liðum í yngsta hópnum en þegar ofar dregur eru fjórir liðsmenn á vellinum. Þjálfarar liðanna eru þau Dagný Finnbjörnsdóttir, Pétur Már Sigurðsson og Sigríður Guðjónsdóttir en auk þeirra aðstoða foreldrar eftir þörfum. Stór hópur foreldra fylgir jafnan yngstu iðkendunum og má ætla að um og yfir 70 manns úr röðum Vestra sé á leið suður í þessa árlegu körfuboltaveislu Fjölnismanna.

Mótið er frábær fjölskylduskemmtun þar sem boðið er upp á körfubolta frá morgni til kvölds, bíó, sund, skauta, hrekkjavökustemmingu, andlitsmálun fyrir blysför og kvöldvöku. Allir þátttakendur fara heim með veglegan Spalding körfubolta.

Líkt og jafnan er með mót í yngstu aldurshópum körfunnar er ekki keppt um sæti og stigin eru ekki talin heldur ræður leikgleðin ríkjum og allir keppendur fá verðlaunapening að móti loknu.

Kkd. Vestra óskar keppendum sínum góðs gengis og góðrar skemmtunar. Áfram Vestri!

 

Deila