Fréttir

Stór útivallahelgi hjá Vestra

Körfubolti | 14.10.2016
Nebojsa Knezevic meiddist í síðasta leik en vonir standa til að hann nái að spila í kvöld gegn FSu. Ólíklegara er að Hinrik Guðbjartsson sem einnig meiddist nái að að vera í hópnum.
Nebojsa Knezevic meiddist í síðasta leik en vonir standa til að hann nái að spila í kvöld gegn FSu. Ólíklegara er að Hinrik Guðbjartsson sem einnig meiddist nái að að vera í hópnum.

Iðkenndur Körfuknattleiksdeildar Vestra verða á ferð og flugi um Suðurlandið um helgina. Meistaraflokkur karla mætir í Iðu á Selfossi og mætir þar FSu í 1. deild karla. Strákarnir í 10. flokki keppa einnig á Selfossi um helgina þar sem þeir taka þátt í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Á Flúðum keppir svo stór hópur stelpna í minnibolta eldri stúlkna á fjölliðamóti.

Leikur FSu og Vestra hefst klukkan 19:15 í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Okkar strákar urðu fyrir blóðtöku í síðasta leik gegn Fjölni þegar bæði Nebojsa og Hinrik meiddust. Óljóst er hvort þeir verði báðir orðnir heilir fyrir kvöldið svo það er hætt við að á brattann verði að sækja á Selfossi. Strákarnir eru þó staðráðnir í að ná í sinn fyrsta sigur í deildinni á Selfossi í kvöld þrátt fyrir að skörð hafi verið hoggin í liðið.

Strákarnir í 10. flokki drengja hefja leik í D riðli Íslandsmótsins sem fram fer á Selfossi á laugardag og sunnudag. Þar mæta strákarnir heimamönnum í FSu, ÍR og Snæfelli. Nebojsa Knezevic mun stýra liðinu að hluta til þar sem Yngvi Gunnlaugsson fylgir einnig úr hlaði stórum hópi minniboltastúlkna sem keppa á Flúðum um helgina. Fulltrúar Vestra á því móti eru alls sautján og keppa stelpurnar í þremur liðum.

Það er heldur betur bjart yfir kvennakörfunni hjá okkur því flottur hópur 9. flokks stúlkna keppir einnig um helgina á fyrsta fjölliðamóti sínu á Íslandsmótinu. Stelpurnar keppa í D-riðli ásamt Valsstúlkum og KR. Stelpurnar í 9. flokki hafa tekið miklum framförum að undanförnu undir stjórn Nökkva Harðarsonar og eru þær til alls vísar um helgina.

Áfram Vestri!

Deila