Fréttir

Strákarnir fara ósigraðir upp í B-riðil og stelpunýliðarnir stimpla sig hressilega inn

Körfubolti | 01.12.2015
Strákarnir í 8. flokki með Hákoni Ara þjálfara og Fjölni Ásbjörnssyni, fararstjóra, þreyttir en ánægðir eftir fyrri keppnisdaginn í Njarðvík.
Strákarnir í 8. flokki með Hákoni Ara þjálfara og Fjölni Ásbjörnssyni, fararstjóra, þreyttir en ánægðir eftir fyrri keppnisdaginn í Njarðvík.
1 af 2

Það var svo sannarlega nóg að gera hjá krökkunum í 8. flokkum KFÍ um helgina þegar önnur umferð Íslandsmótsins fór fram. Stelpurnar mættu í Hafnarfjörð en leið strákanna lá í Njarðvík. Skemmst er frá því að segja að strákarnir unnu alla sína leiki og eru þar með komnir í B-riðil. Stelpurnar unnu tvo af þremur leikjum sínum í C-riðli sem er frábær árangur í ljósi þess að meirihluti liðsins samanstendur af nýliðum sem byrjuðu fyrst að æfa körfu nú í haust.

 

Stelpurnar eiga mikið inni

Víkjum fyrst sögunni að stelpunum en mótið í C-riðlinum var haldið á heimavelli Hauka á Ásvöllum.  Allir þrír leikir mótsins fóru fram á laugardeginum og hóf KFÍ leik gegn Valsstúlkum og það í hörkuleik. Eftir þrjá leikhluta var staðan hnífjöfn 17-17 en þá settu KFÍ stúlkur í næsta gír og sigldu flottum sigri heim 23-19 eftir mikla baráttu á báðum endum vallarins.

 

Í öðrum leiknum gegn Haukum var sama harka og áður og mikil barátta hjá báðum liðum. Fyrir fjórða og síðasta leikhlutann munaði aðeins tveimur stigum á liðunum 15-17 Haukastúlkum í vil. Á þessum tímapunkti voru KFÍ stúlkur orðnar átta talsins eftir meiðsli sem komu upp í leiknum og voru auk þess komnar í villuvandræði. Haukar notuðu breiddina sína vel og tóku öll völd í fjórða leikhluta og unnu 10 stiga sigur á KFÍ stúlkum 19-29. Stelpurnar okkar eiga þó greinilega mikið inni ef marka má frammistöðuna í fyrstu þremur leikhlutunum.

 

Í þriðja og síðasta leik mættu KFÍ stúlkur B liði Vals og voru KFÍ stúlkur staðráðnar í því að gera betur en á móti Haukastúlkunum. Í þessum leik sýndi KFÍ hörku og dugnað og gáfu Valsstúlkum ekkert eftir. KFÍ stúlkur voru mun ákveðnari og voru 6 til 8 stigum yfir allan leikinn og tóku frekar þægilegan sigur á Val B 22-17.

 

Þjálfari KFÍ stúlknanna er Nökkvi Harðarson og er hann að ná einstaklega góðum árangri með bæði 7. flokk og 8. flokk kvenna en yngri stelpurnar komust einmitt upp í A-riðil í síðustu umferð Íslandsmótsins sem fram fór á Ísafirði fyrir skömmu. Þess má reyndar geta að Hákon Ari Halldórsson, þjálfari 8. flokks drengja, aðstoðar Nökkva á fjölmennum stúlknaæfingunum og eru þeir félagar mjög samstíga í þjálfun þessa aldurshóps, sem telur um 30 einstaklinga.

 

Nökkvi er að vonum ánægður með nýafstaðna helgi og sigrana tvo hjá stelpunum en margar þeirra byrjuðu fyrst að æfa körfubolta nú í haust: „Þetta er frábært afrek þar sem flestar stelpurnar í þessum flokki eru að stíga sín fyrstu skref í körfubolta og körfuboltamótum. Framtíðin er svo sannarlega björt í verstfirskum kvennakörfubolta ef fram fer sem horfir.“

 

Strákarnir  ósigraðir en það var tæpt á tímabili

Og þá að frammistöðu strákanna í 8. flokki sem Hákon Ari stýrir af miklum myndarbrag en strákarnir eru ósigraðir eftir fyrstu tvær umferðirnar á Íslandsmótinu. Hópurinn samanstendur af fjórum strákum fæddir 2002 og fimm fæddir 2003, þar af eru tveir Strandastrákar sem eðli máls samkvæmt æfa ekki að staðaldri með félögum sínum.

 

Tveir leikir fóru fram á laugardeginu og var fyrri leikurinn á móti Snæfelli. Reyndist sá leikur auðveldari en við var búist og voru okkar menn fljótt komnir með talsvert forskot og sigruðu örugglega.

 

Snæfell 16 – KFÍ 56

Hilmir 31

Hugi 12

Blessed 8

Egill 4

Daði 3

Friðrik 2

 

Seinni leikur laugardagsins var á móti Þór Akureyri og urðu miklar sviptingar í þeim leik. Okkar menn byrjuðu illa á móti ákveðnum Þórsurum og vissu ekki hvernig þeir áttu að bregðast við varnarleik andstæðingsins og voru sjálfir ekki nógu vakandi í vörninni. Strákarnir að norðan voru brátt komnir með gott forskot og létu okkar menn mótlætið fara í taugarnar á sér, sem ekki varð til að bæta stöðuna.  Hákon þjálfari las mönnum pistilinn í leikhléi og mættu strákarnir betur stemmdir og ákveðnir í Í þriðja leikhluta. Sýndu þeir mikinn karakter þegar þeir smám saman söxuðu á forskot Þórsaranna og í fjórða leikhluta var þetta bara orðin spurning um hversu stór sigurinn yrði.

 

Þór Ak. 29 – KFÍ 52

Hilmir 25

Hugi 14

Egill 11

Blessed 4

 

Sunnudagurinn hófst á leik á móti Njarðvík sem hafði unnið alla sína leiki fram að þessu. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir okkar byrjuðu afspyrnu illa og virtust hreinlega ekki vera vaknaðir. Njarðvíkingarnir spiluðu vel og náðu nokkru forskoti þótt okkar menn væru aldrei langt á eftir en fyrri hálfleikur leit alls ekki vel út hjá þeim. Virtist jafnvel sem fyrsti ósigurinn lægi í loftinu hjá KFÍ-strákunum en þeir voru ekki tilbúnir til að játa sig sigraða og mættu af fullum krafti í seinni hálfleik og sneru leiknum sér í hag. Voru þeir komnir með örugga forystu undir lok fjórða leikhluta og dugðu tvær þriggja stiga körfur Njarðvíkinga á lokamínútunni ekki til að vinna upp það forskot.

 

Njarðvík 40 – KFÍ 46

Hilmir 26

Hugi 16

Blessed 2

Egill 2

 

Fjórði og síðasti leikurinn var á móti Grindavík. KFÍ-strákarnir mættu vel stemmdir í þennan leik og spiluðu flottan körfubolta. Voru þeir yfir megnið af leiknum og náði Grindavík aðeins að halda í við þá í fyrsta leikhluta en eftir það juku strákarnir smám saman forskotið og unnu leikinn örugglega. Spennandi verður að sjá hvernig strákarnir standa sig í B-riðlinum eftir áramót en nokkuð víst má telja að þar mæti þeir mun sterkari andstæðingum en raunin hefur verið til þessa í vetur.

 

Grindavík 43 – KFÍ 61

Hilmir 33

Egill 8

Blessed 7

Hugi 7

Friðrik 4

James 3

Deila