Fréttir

Tap á Selfossi

Körfubolti | 02.12.2014
Mynd: ingvi.stigsson.is
Mynd: ingvi.stigsson.is
1 af 4

Karlalið KFÍ reið ekki feitum hesti frá för sinni um Suðurlandsundirlendið síðustu daga. Á föstudaginn tapaðist leikur gegn Hamri í Hveragerði og í gærkvöldi tapaðist leikur gegn FSu á Selfossi en leikurinn átti upphaflega að fara fram á sunnudag en var frestað vegna veðurs.

 

Okkar menn byrjuðu ágætlega gegn FSu en undir lok fyrsta fjórðungs tóku Selfyssingar hresilega framúr. KFÍ liðið gafst þó ekki upp og átti góðan sprett í síðasta leikhlutanum en náði þó ekki að halda út og því var tap 101-86 staðreynd þegar flautað var til leiksloka. Nánar má fræðast um leikinn á heimasíðu FSu í ítarlegri samantekt. Einnig má nálgast ítarlegar tölfræðiupplýsingar á vef KKÍ.

 

Nebojsa var stigahæstur KFÍ manna með 27 stig, 4 fráköst og 6 stolna bolta. Birgir Björn var með 26 stig og 14 fráköst. Þá átti Óskar Kristjánsson sinn besta leik í vetur en hann setti 14 stig og var með 50% nýtingu í þriggja stiga skotum.

 

Hjá FSu var Collin Anthony Pryor atkvæðamestur með 27 stig og 18 fráköst og safnaði alls 45 framlagsstigum. Ari Gylfason, fyrrum liðsmaður KFÍ átti einnig góðan leik en hann setti 24 stig og var með góða skotnýtingu. Erlendur Ágústsson skoraði 22 stig.

 

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Hetti á Egilsstöðum þann 12. desember.

 

Myndasafn úr leiknum

Deila