Fréttir

Tap gegn Fjölni og sjúkralistinn lengist

Körfubolti | 09.10.2016
Hinrik Guðbjartsson á vítalínunni.
Hinrik Guðbjartsson á vítalínunni.

Fjölnismenn lögðu Vestra á Jakanum í kvöld í fyrsta heimaleik liðsins á tímabilinu. Lokatölur leiksins voru 69-98 en þær gefa þó ekki rétta mynd af getumun liðanna því segja má að óheppnin hafi elt Vestra í þessum fyrsta heimaleik þar sem tveir bestu menn liðsins lentu á sjúkralistanum. Fjölnismenn gengu á lagið og sigruðu örugglega.

Í fyrri háfleik var leikurinn jafn og spennandi. Þetta var hraður leikur og mikið skorað en að sama skpi er ljóst að varnarleikurinn beggja liða er óslípaður. Fjölnismenn voru oftast skrefi á undan en Vestri var vel inn í leiknum og náði á köflum forystu. Í hálfleik var staðan 43-50 gestunum í vil. Í leikhléi kom svo í ljós að meiðsl sem Nebosja varð fyrir undir lok annars leikhluta voru þess eðlis að hann yrði að verma bekkinn það sem eftir lifði leiks. Þetta var æði mikil blóðtaka fyrir liðið og smátt og smátt fjaraði undan leik þess. Um miðjan þriðja leikhluta fóru gestirnir að breikka bilið og þegar honum lauk var staðan orðin 63-79. Þegar ein mínúta var liðin af fjórða leikhluta urðu Vestrastrákar svo fyrir öðru áfalli þegar leikstjórnandinn Hinrik Guðbjörnsson meiddist. Þar með voru tveir bestu leikmenn Vestra úr leik og mátti liðið ekki við því.

Ýmislegt jákvætt má þó taka út úr þessum leik. Fyrri háfleikurinn var að ýmsu leyti góður, sóknarleikur liðsins gekk oft glimrandi vel, hraður og ógnandi. Einnig var ánægulegt að sjá að stigaskor dreifðist vel yfir liðið í fyrri hálfleik. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir liðið að fá gott framlag frá sem flestum leikmönnum. Ákveðinn haustbragur er þó enn á varnarleik liðsins sem slípast vonadi til fljótlega því vörnin er hreyfanleg og á köflum beitt. Þá er einnig ljóst að Vestri má illa við því að missa tvo af lykilmönnum sínum eins og sést glögglega á seinni hálfleiknum og vonum við að þeir Nebó og Hinrik nái bata sem allra fyrst.

Stigahæstur hjá Vestra var Hinrik Guðbjartsson með 17 stig. Næstur kom Adam Smári með 14 en hann átti skínandi góðan leik. Næstir komu þeir Daníel Midgley, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Nebojsa Knezevic sem allir skoruðu 8 stig, en Nebó tók auk þess 9 fráköst (og lék aðeins í fyrri hálfleik). Nökkvi Harðarson skoraði 7 sti, Björgvin Snævar 4 og Hákon Ari 3.

Stigahæstur hjá gestunum var Elvar Sigurðsson með 23 stig. Elvar átti góðan dag fyrir utan þriggja stiga línuna því af þeim 15 skotum sem hann tók voru 14 utan línunnar og setti hann 7 þeirra niður. Colin Pryor var einnig drjúgur hjá gestunum að vanda, hann skoraði 12 stig og tók 13 fráköst. Bergþór Ríkharðsson skoraði einnig 12 stig, Sindri Kárason skoraði 10 og Róbert Sigurðsson 9 en gaf auk þess 11 stoðsendingar. Aðrir voru með minna.

Tölfræði leiksins.

Deila