Fréttir

Tap í Keflavík

Körfubolti | 19.10.2013
Mynd: Karfan.is / skuli@karfan.is
Mynd: Karfan.is / skuli@karfan.is

KFÍ mætti Keflavík í gær í Domino’s deild karla en leikurinn fór fram í TM Höllinni í Keflavík. Fyrir þennan leik hafði KFÍ einungis einu sinni unnið deildarleik á heimavelli Keflvíkinga í 9 tilraunum en það var árið 1998. Þetta var einnig fyrsti leikur Birgis Arnar Birgissonar, þjálfara KFÍ, við sína gömlu félaga en hann lék fjögur tímabil með Keflavík á árunum 1996-2001.

 

Ísfirðingar voru án Hraunars Guðmundssonar sem er frá vegna meiðsla en hann skoraði 9 stig í leik KFÍ við Njarðvík um daginn. Hjá Keflavík var hins vegar stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson frá en hann braut hendina á sér á dögunum.

 

Byrjunarlið Keflavíkur: Gunnar Ólafsson, Arnar Freyr Jónsson, Micael Craion, Darrel Lewis og Guðmundur Jónsson.

 

Byrjunarlið KFÍ: Ágúst Angantýsson, Jón Hrafn Baldvinsson, Leó Sigurðsson, Jason Smith og Mirko Stefán Virijevic.

 

KFÍ byrjaði leikinn á þriggja stiga körfu frá Ágústi Angatýssyni og leiddu fyrstu 7 mínúturnar. Keflavík komst fyrst yfir í stöðunni 15-13 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir í leikhlutanum en með góðu spili leiddi KFÍ 20-22 í lok hans. Mirko Stefán fór mikinn í fyrsta leikhluta og skoraði 10 stig en Ágúst Angatýsson bætti við 6 stigum.

 

Keflavík byrjaði annan leikhluta með sjö ósvöruðum stigum í röð, þar af fimm frá Þresti Leó Jóhannsyni sem sett alls 10 stig í leikhlutanum.

 

Fyrirliðinn Jón Hrafn Baldvinsson fékk svo að kenna á nýju áherslubreytingum dómaranefndar þegar hann fékk óíþróttamannslega villu fyrir litlar sakir þegar hann braut á Almari Guðbrandssyni, fyrrum leikmanni KFÍ.

 

Mest náðu Keflvíkingar níu stiga forustu en þriggja stiga karfa frá Jason Smith í blá lokin tryggði að KFÍ var einungis sex stigum undir í hálfleik, 45-39.

 

Í þriðja leikhluta fór svæðisvörn Keflavíkur að þjarma all verulega að Ísfirðingum og um miðjan leikhlutan var Keflavík komið 13 stigum yfir, 60-47. Lítið flæði var í sóknarleik KFÍ og gekk hann mest út á einstaklingsframtak. Töpuðu boltarnir hrönnuðust upp sem skiluðu auðveldum körfum fyrir Keflvíkinga en þeir voru komnir með örugga 21 stigs forustu í lok leikhlutans, 74-53.

 

Fjórði leikhluti var aldrei spennandi og hápunktur hans var líklegast þegar Ólafur Geir Jónsson, betur þekktur sem DJ  Óli Geir, fékk laun erfiðis síns og skoraði sín fyrstu úrvalsdeildarstig.

 

Hjá KFÍ var Mirko Stefán atkvæða mestur með 24 stig (12/21 í skotum) og 8 fráköst. Jason Smith skoraði 20 stig en hitti illa og Ágúst Angatýsson bætti við 10 stigum og 11 fráköstum.

 

Hjá Keflavík var Guðmundur Jónsson lang atkvæðamestur með 27 stig.

Deila