Fréttir

Tap þrátt fyrir að baráttan væri góð!

Körfubolti | 14.12.2012
Hér er Damier á leiðinna að körfunni og KJ greinilega að leggja hönd á hann!?
Hér er Damier á leiðinna að körfunni og KJ greinilega að leggja hönd á hann!?
1 af 7

KFÍ tók á móti Stjörnunni í kvöld og var hart tekist á.  Stjörnumenn hafa verið á góðu róli í haust en töpuðu reyndar síðasta leik í deildinni á móti KR á heimavelli.  Það hlýtur að hafa verið gríðarlega erfitt tap og pottþétt að Teitur og lið hans voru mættir til þess að takmarka þessa taphrinu við einn leik.  KFÍ hefur verið að endurskipuleggja sig eftir mannabreytingar og þurft að aðlaga sinn leik eftir því. Í síðustu leikjum hefur verið viss stígandi en þó hafa þeir ekki ennþá uppskorið sigur í síðustu sex deildarleikjum, eða frá því þeir lögðu Tindastól á útivelli fyrir tveimur mánuðum.

 

Það var greinilegt frá upphafsmínútunum að bæði lið gerðu sér grein fyrir stöðu sinni og þótt markmið í deildinni séu e.t.v. ólík var ljóst að markmið fyrir þennan leik var það sama, að sigra! Leikurinn fór því fjörlega af stað og hafði KFÍ reyndar frumkvæðið framan af fyrsta fjórðungi, en gestirnir aldrei langt undan. Á þessum kafla litu heimamenn bara nokkuð vel út en þá kom Justin Shouse og setti niður 8 stig á síðustu mínútu leikhlutans og breytti stöðunni 20:18 í 23:26 áður en tíminn rann út.  Í millitíðinni hafði Hlynur Hreinsson sett niður laglegt 3ja stiga fyrir KFÍ. Annar leikhluti var mjög heilsteyptur hjá KFÍ og spiluðu þeir frábæra vörn á þessum kafla, enda átti Stjarnan í miklum erfiðleikum í sókninni. KFÍ tók þennan leikhluta 22:16 og leiddu í hálfleik 45:42.

 

Eftir leikhlé hélt þessi sama barátta áfram og var talsverð ákefð í leik liðanna sem gladdi áhorfendur. Stjarnan náði að snúa við taflinu og virtist sem leikreynslan og samæfing leikmanna væri að fara að skila liðinu þeim sigri sem þeir vissulega ætluðu sér í kvöld. Eins og fyrr í kvöld var talsvert brotið og t.d. sendu heimamenn gestina á vítalínuna 15 sinnum á þessum tíu mínutum. Það voru auðveld stig sem Stjarnan náði sér í og snéru þeir nú við taflinu, enda unnu þeir leikhlutann 18:24. Staðan fyrir síðasta leikhluta var 63:66. Fjórði leikhluti var mjög spennandi og enn á ný breyttust valdahlutföllin á vellinum í þessum kaflaskipta leik. Vafalaust hafa margir haldið að nú myndi Stjarnan slíta sig frá KFÍ og vinna iðnaðarsigur eins og oft sér. Það gerðist ekki einfaldlega vegna þess að KFÍ menn héldu út baráttunni og ákefðinna allan leikinn.  Þetta skilaði því að þeir náðu forystunni á ný þegar 3:21 min voru eftir af leiknum, með tveimur vítaskotum frá Jóni Hrafni og staðan orðin 78:77 fyrir KFÍ. Stúkan á Jakanum var mjög heit og eiginlega við bræðslumark, enda fundu menn í fyrsta sinn í langan tíma lyktina af sætum heimasigri. Síðustu mínuturnar voru æsispennandi og liðin skiptust á nokkuð góðum körfum.  Justin braut svo á Damier þegar 27 sek voru eftir af leiknum í stöðunni 87:85 og skoraði hann úr öðru vítinu. Því var staðan 88:85 þegar stjarnan tók boltann inn og stutt eftir. Afturskyggnið er oft skýrara og e.t.v. hefði verið skynsamlegt af heimamönnum að brjóta á Stjörnunni, sem var komin með skottrétt og láta þá finna fyrir pressunni á vítalínunni.  Sókn Stjörnunnar fékk að flæða og endaði með 3ja stiga körfu frá Justin Shouse leiðtoga þessa frábæra liðs. Leiktíminn rann svo út og jafnt 88:88 í leikslok.

 

Við tók framlenging og þar skilaði breidd Stjörnunnar og líklega fyrrnefnd reynsla þeim forskoti sem þeir gáfu ekki eftir. Hetjuleg barátta KFÍ dugði ekki lengur og voru þeir fyrir löngu komnir í mikil villuvandræði sem auðvitað höfðu sitt að segja. Að lokum sigraði Stjarnan nokkuð verðskuldað 101:107, en auðvitað lá þessi mikli munur þarna í 11 vítaskotum sem þeir tóku þegar KFÍ var að reyna að vinna upp muninn í örvæntingu lokasekundna leiksins.

 

Þetta var auðvitað sætur sigur sem Teitur og hans menn hafa með sér í farteskið heim. Justin og Marvin drógu vagninn að verulegu leyti en það sáust skemmtilegir taktar hjá t.d. Degi sem er reyndar hættur að koma eitthvað á óvart. Vfalaust verður áhugavert að fylgjast með þessum unga leikmanni á komandi árum. 

 

KFÍ getur borið höfuðið hátt, þeir hafa sýnt stíganda í síðustu leikjum og mikil batamerki á liðinu. Vörnin var góð og samvinnan augljós þar og eins og máltækið segir þá hefst sóknin í vörninni. Það sást í kvöld og virtist skipulag liðsins vera að mótast nokkuð vel. Damier hélt áfram þar sem frá var horfið í síðasta leik og er yfirburðamaður. Tyrone steig fram og átti sinn besta leik hingað til, virðist vera að finna sig nokkuð vel. Kristján Pétur er að ná sér eftir meiðslin i sumar og gaf ekkert eftir í vörninni, en hann setti einnig upp snyrtilegar tölur í skotnýtingu. Hlynur átti mjög trausta innkomu og heldur áfram að styrkjast.

 

KFÍ: Damier Pitts 36/6 fráköst, Kristján P. Andrésson 21/6 fráköst, Tyrone Bradshaw 21/6 fráköst og 3 stolnir, Hlynur Hreinsson 10, Jón Hrafn Baldvinsson 7/7 fráköst, Mirko Stefan Virijevic 6/13 fráköst, Leó Sigurðsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Guðmundur Guðmundsson 0, Haukur Hreinsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0. 

 

Stjarnan: Justin Shoulse 28, Marvin Valdimarsson 19/8 fráköst, Brian Mills 18/9 fráköst, Jovan Zdravevski 13/5 fráköst, Fannar F. Helgason 13/8 fráköst, Dagur K. Jónsson 10, Kjartan A. Kjartansson 5, Sæmundur Valdimarsson 1/7 fráköst, Daði L. Jónsson 0.

 

Dómarar: Einar Þ. Skarphéðinsson, Georg Andersen, Sigurbaldur Frímannsson

 

Texti: Helgi Kr. Sigmundsson

Myndir: Halldór Sveinbjörnsson

Deila