Fréttir

The Coolios eru Streetball meistarar 2010

Körfubolti | 12.07.2010
Hress hópur á Torfnesi
Hress hópur á Torfnesi
1 af 4

Það var boðið upp á stórkostlega íþróttasýningu á Torfnesi í gær þegar Streetball mót KFÍ fór fram á sama tíma og fótboltaleikur BÍ og Selfoss í 3. flokki karla. Margir heimamenn höfðu komið sér þægilega fyrir í stúkunni í blessuðu veðurblíðunni til þess að horfa á fótboltaleikinn en hafa vafalaust ekki geta tekið augun af þeirri körfuboltalistasýningu sem Streetball spilarar Ísafjarðar sýndu þeim.

 

Alls mættu sex lið til leiks á sunnudaginn. Liðin sem tóku þátt voru The Coolios, In it to win it, Illa skeindir, Team Pakistan, Fúsíjama BCI og The Canucks. Leikið var í eina umferð og þau tvö lið sem enduðu í efstu sætunum léku svo til úrslita. Hver leikur var upp í 7 og vinna þurfti með tveimur stigum. Mótið var haldið til að safna pening sem nota á til að lagfæra körfuboltavöllinn en eins og áður hefur fram komið er þörf á lagfæringum.

 

Opnunarleikur mótsins var sannkallaður alþjóðaleikur þar sem Fúsíjama Basketball Club International mætti kanadíska liðinu The Canucks. Fóru kanadamenn með 5-7 sigur af hólmi í bráðfjörugum leik en sá sigurleikurinn reyndist vera þeirra eini. Samhliða þeim leik voru Illa skeindir skeindir af The Coolios 7-3 á hinni körfunni.

 

Eftir að hvert lið hafði leikið fjóra leiki höfðu In it to win it tekið örugga forystu með því að sigra alla sína leiki. Rétt á eftir þeim voru The Coolios og Team Pakistan með tvo sigra og tvö töp en Illa skeindir, Fúsíjama og The Canucks með einn sigurinn hvor. In it to win höfðu því tryggt sér sæti í úrslitaleiknum en hörð barátta var um annað sætið.

 

Í lokaleik mótsins milli In it to win it og Team Pakistan var skorið úr um hvaða lið fengi að spila úrslitaleikinn. Með sigri kæmist Team Pakistan í úrslitaleikinn á hagstæðari stigatölu fram yfir The Coolios en með tapi færi The Coolios í úrslitin. Mikill hiti var í leiknum og sauð næstum því upp úr á tímabili þegar Hjalti Már fyrirskipaði liðsfélögum sínum að setja ólöglegar hindranir. Endaði leikurinn með sigri In it to win it og komst því Team Pakistan ekki í úrslitin.

 

,,Já ég er hundfúll með þessi úrslit”, sagði fyrirliði Team Pakistan, Stefán Pálsson, eftir leikinn. ,,Ég veit ekki hvað klikkaði, við vorum vel undirbúnir með góða leiktaktík. Vorum meira að segja búnir að æfa off-ball screen fyrir mótið.”

 

Fleiri voru ósáttir með frammistöðu liða sinna í mótinu þar á meðal Sturla Stígsson, fyrirliði Fúsijama BCI, en liðið endaði í síðasta sæti með verstu stigatöluna. Þegar Sturla var spurður út í ástæðuna fyrir lélegu gengi þá sagði hann að þetta hefði verið “dómaraskandall”, aðstæðurnar óboðlegar og allt mótið lyktaði af samsæri.

 

Eftir að menn höfðu tekið stutta pásu og vætt kverkarnar þá var komið að úrslitaleiknum: The Coolios gegn In it to win it. In it to win it fóru taplausir í gegnum deildarkeppnina og voru því taldir sigurstranglegri af veðbönkum. Leikurinn var jafn og skemmtilegur og skiptust liðin á að skora körfur í öllum regnbogans litum. Í stöðunni 5-5 kláraði Gummi svo mótið með því að setja þrist af toppnum. Liðsmenn Coolios fögnuðu gríðarlega á meðan liðsmenn In it to win it löbbuðu súrir út af vellinum.

 

,,Þetta gekk upp eins og í sögu”, sagði hetjan og fyrirliði liðsins, Guðmundur Jóhann. ,,Við spöruðum okkur í deildarkeppninni til að eiga meira eftir í tankinum þegar kæmi að úrslitakeppninni. Það voru engin þreytumerki hjá mínum mönnum, það sást vel í úrslitaleiknum. In it to win it eru með hörkulið, þessi leikur hefði getað dottið báðum megin en á endanum held ég að við höfum bara viljað þetta meira.”

 

Hermann Óskar fyrirliði In it to win it var að vonum ósáttur eftir úrslitaleikinn. ,,Auðvitað er ég ósáttur. Markmiðið var að vinna mótið eins og nafn liðsins ber með sér. Við vinnum alla leiki nema þann sem skiptir mestu máli. Kannski vorum við of öruggir þar sem við höfðum ekki tapað leik enn þá. Ég veit ekki.... þetta var sárt.”

 

Það voru því víkararnir í The Coolios sem standa uppi sem sigurvegarar Streetball móts KFÍ.  Í verðlaun fá þeir pizzaveislu í boði Hamraborg og viljum við þakka Hamraborg fyrir það. FúsíjamaTV var á staðnum og útbjó lítið myndskeið af mótinu sem sjá má hér.

 

Deila