Fréttir

Þríhöfði gegn Hetti um helgina

Körfubolti | 26.10.2016
Vestri mætir Hetti í þremur leikjum um helgina.
Vestri mætir Hetti í þremur leikjum um helgina.

Hattarmenn frá Egilsstöðum koma í heimsókn á Jakann um helgina og leika tvo leiki gegn meistaraflokki Vestra í 1. Deild karla. Einnig mæta unglingaflokkar liðanna á föstudagskvöld. Það verður því sannkölluð körfuboltaveisla um helgina.

Dagskrá helgarinnar er svona:

Leikur unglingaflokks á föstudagskvöldið hefst kl. 20:30.

Leikur meistaraflokka liðanna á laugardag hefst kl. 16:00 og á sunnudag klukkan 13:00.

Hattarmenn sem féllu úr úrvalsdeild eftir stutt stopp í vor hafa farið mjög vel af stað í 1. deildinni og sigrað alla sína leiki. Ef marka má tölfræðina er ljóst að sóknarbolti Hattar hefur gegnið sem smurð vél því þeir hafa skorað 104 stig að meðaltali í þeim fjórum leikjum sem liðið hefur spilað. Lykillinn að því að stöðva Hött liggur því væntanlega í góðum varnarleik. Vestramenn eru til alls líklegir um helgina eftir að hafa landað fyrsta sigrinum í deildinni á útivelli síðastliðinn sunnudag gegn ÍA.

Ljóst er að fyrirliðinn Nökkvi Harðarson mun ekki leika um helgina, en hann fékk þungt höfuðhögg í leiknum gegn ÍA. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að leyfismál Yima Chia-Kur eru í höfn og hann því væntanlegur til vestur á fimmtudag auk þess sem Hinrik og Nebojsa virðast báðir vera búnir að ná sér nokkurnveginn af sínum meiðslum.

Við hvetjum fólk til að mæta á Jakann um helgina og hvetja strákana.

Áfram Vestri!

Deila