Fréttir

Þrír flokkar á körfuboltamótum um liðna helgi

Körfubolti | 01.11.2017
Tíundi flokkur stúlkna Kkd. Vestra í DHL Höll þeirra KR-inga ásamt þjálfara sínum, Yngva Páli Gunnlaugssyni.
Tíundi flokkur stúlkna Kkd. Vestra í DHL Höll þeirra KR-inga ásamt þjálfara sínum, Yngva Páli Gunnlaugssyni.
1 af 3

Líkt og undanfarnar helgar í haust var í nægu að snúast hjá yngri flokkum Kkd. Vestra um liðna helgi en alls voru þrír flokkar í keppni. Fyrsta umferð í C-riðli Íslandsmóts 7. flokks stúlkna fór fram á Torfnesi, 10. flokkur stúlkna spilaði á heimavelli KR-inga í Vesturbæ Reykjavíkur en drengirnir í Minnibolta 11 ára sóttu mót ÍR-inga í Breiðholtinu.

Tíundi flokkur stúlkna

Vestrastelpurnar í 10. flokki öttu kappi við stöllur sínar úr KR, Haukum og Val og var fyrsti leikurinn gegn Haukum. Ekki var boðið upp á neina flugeldasýningu í þeim leik og var fyrri hálfleikur með þeim undarlegri sem Yngvi Páll Gunnlaugsson, þjálfari stúlknanna, hefur verið vitni að. Leikar eftir fyrsta fjórðung stóðu 6-0 fyrir Vestra og 12-2 í hálfleik! Ótrúlegar tölur miðað við aldur og getu beggja liða.

Í þriðja leikhluta snerist svo taflið við og hrökk allt í baklás hjá Vestra sem var hreinlega fyrirmunað að koma boltanum í körfuna, líkt og hjá Haukum í fyrri hálfleik. Haukar komu tvíefldir til leiks og leiddu fyrir lokaleikhlutann 18-17. Sama var upp á teningnum í fjórða leikhluta. Haukar léku við hvurn sinn fingur en að sama skapi náðu okkar stelpur aðeins að setja 10 stig alls í seinni hálfleik, 5 í hvorum leikhlutanum. Svo fór að Haukar hrósuðu sigri 27-22 í hreint ótrúlega slökum körfuboltaleik.

Annar leikur Vestra var gegn heimastúlkum í KR sem komu vel stemmdar til leiks og gerðu Vestra lífið leitt í fyrri hálfleik. Hálfleikstölur 32-8 fyrir KR. Í seinni hálfleik batnaði spilamennska Vestra til muna og gekk oftar en ekki vel. Liðinu gekk vel að leysa pressuvörn KR en líkt og í fyrri leiknum þá vildi boltinn hreinlega ekki ofan í þrátt fyrir álitleg færi. KR sigraði leikinn örugglega, en spilamennska Vestra í seinni hálfleik gaf góð fyrirheit um það sem koma skyldi.

Eini leikur sunnudagsins var gegn Valsstúlkum. Leikurinn var í járnum framan af og spennan í hámarki. Valur leiddi lungann úr fyrri hálfleik og var munurinn 5 stig, 25-20 fyrir þær rauðklæddu, þegar flautað var til leikhlés. Í þriðja fjórðungi fór að draga af Valsstelpum og jafnframt óx Vestrastúlkum ásmegin og höfðu þær vestfirsku jafnað leikinn, 28-28 fyrir lokaleikhlutann. Lokaleikhlutinn var algjör eign Vestra. Vörnin var þétt og loksins fóru skotin að detta fyrir þær bláklæddu. Ivana setti 10 stig í leikhlutanum, þar á meðal tvær þriggjastiga körfur sem áttu stóran þátt í að Vestra tókst að slíta Valsara frá sér og fór svo að lokum að Vestri vann sinn fyrsta sigur í vetur, 51-36.

Þrátt fyrir tvö töp og einn sigur þá var stígandi í leik stúlknanna og ljóst að rými fyrir betrumbætur er mikið. Allar stelpurnar skiluðu sínu og voru félagi sínu til sóma innan vallar sem utan. Allir voru sammála um að ferðin hafi verið vel heppnuð og það voru þreyttar en glaðar Vestrastúlkur sem snéru heim frá Reykjavík á sunnudagskvöld.

Sjöundi flokkur stúlkna

Heimamótið hjá 7. flokki stúlkna markaði tímamót fyrir okkar stelpur og flesta aðra keppendur því þetta er í fyrsta sinn sem stelpurnar spreyta sig í móti á heilum velli og stórum körfum. Sú breyting verður þegar iðkendur fara upp í 7. flokk en í minniboltamótum fram að því er spilað þvert á völl á litlar körfur.

Mótherjar Vestra í C-riðlinum að þessu sinni voru Ármann, Breiðablik og ÍR. Fyrsti leikur á laugardegi var á móti Breiðablik og fór svo að gestirnir unnu með stórum mun en þær búa yfir stóru og sterku liði. Greinilegt var að okkar stelpur áttu eftir að slípa spilið sitt betur enda voru í hópnum fjórar stelpur úr minnibolta sem æfa ekki markvisst með 7. flokki. Sá flokkur er aðeins of fámennur og því var upplagt að sækja sér liðsstyrk í yngri flokk. Einnig hafði það veruleg áhrif að einn af lykilleikmönnum Vestraliðsins er meiddur.

Annar leikur okkar stelpna var gegn Ármanni og þar sýndu Vestrastelpur að þær höfðu tekið með sér ýmislegt úr fyrsta leiknum. Fór svo að þær höfðu nokkuð öruggan sigur á Ármanni og gátu því vel við úrslitin unað.

Í lokaleiknum, gegn spræku liði ÍR, var farið að glitta í mun meira keppnisskap og hörku hjá okkar stelpum auk þess sem þær áttu fína spretti í spilinu. ÍR vann með miklum mun en Vestrastelpurnar veittu þeim þó mun meiri keppni en hin liðin í riðlinum en svo fór að ÍR vann alla sína leiki og komst upp úr riðlinum. Ármann féll niður en okkar stelpur og Breiðablik héldu sætum sínum.

Adam Smári Ólafsson, þjálfari 7. flokks, var afar ánægður með framfarirnar hjá sínu liði í mótinu en þetta var frumraun hans sem þjálfara í móti. Hann sagði góðan stíganda í spilinu og var afar sáttur við að sjá að stelpurnar hefðu lagt allt sitt í leikina undir lokin. Hann er bjartsýnn á framhaldið í vetur en fyrstu mót vetrarins eru oftast best til þess fallin að sjá hvað má laga og hverju þarf að breyta. Það verður því spennandi að fylgjast með framvindu mála í vetur hjá þessum flottu 7. flokkstselpum undir stjórn Adams.

Minnibolti 11 ára drengir

Minnibolti eldri drengja keppti á fyrsta Íslandsmóti vetrarins í Seljaskóla um helgina þar sem ÍR-ingar tóku á móti öllum liðum í öllum riðlum í minnibolta 11 ára drengja. Vestri sendi frá sér níu flotta og efnilega körfuboltaleikmenn í tveimur liðum. Annað liðið var skipað strákum fæddum 2006 en hitt liðið var skipað strákum fæddir 2007 og voru þeir því að keppa við lið skipuð ári eldri leikmönnum.

Ballið byrjaði klukkan þrjú á laugardegi en liðin höfðu tekið daginn snemma og keyrt að vestan um morguninn í mótið. Það var greinilegt að spennan fyrir leikjunum hafði valdið því að enginn leikmaður lét bílferðina sitja í sér. Bæði lið mættu öflug til leiks og unnu eldri strákarnir sannfærandi sigra á laugardeginum á liðum frá Val og KR. Yngri strákarnir öttu kappi við lið frá Ármanni og Þór frá Akureyri og unnu einnig sannfærandi sigra.

Sunnudagurinn var svo tekinn snemma og bæði lið búin að koma sér í lykilstöðu í riðlum sínum. Við tóku tveir úrslitaleikir til að sigra riðlana. Yngri strákarnir spiluðu við Aftureldingu og lauk leik með naumu 4 stiga tapi á móti sterkum og stórum andstæðingum. Mótið hjá þeim endaði með leik á móti Ármanni sem tapaðist einnig með 4 stigum. Frammistaðan var hinsvegar frábær og strákarni sáttir með sitt framlag. Liðið mun því leika í sama riðli á næsta móti en þessi hópur hafði aldrei tekið þátt í Íslandsmóti fyrr en nú.

Eldri hópurinn mætti einu af fjölmörgum liðum frá Stjörnunni í þessu móti og unnu enn einn sannfærandi sigurinn. Þeir bættu svo um betur og unnu KR í lokaleik og eru því búnir að tryggja sér sæti í B riðli á næsta móti. Það er Gunnlaugur Gunnlaugsson sem þjálfara þessa vösku stráka og hann var að vonum ánægður með sína menn eftir mótið. Sagði hann að þó svo að úrslitin hafi almennt verið góð þá hafi það verið baráttan og íþróttaandinn í strákunum sem hafi heillað hann mest. Þeir eigi greinilega heilmikið inni fyrir komandi vetur.

Deila