Fréttir

Þungur róður gegn Gnúpverjum

Körfubolti | 09.02.2018
Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld.

Sprækir Gnúpverjar höfðu betur í  í kvöld í viðureign sinni við Vestra á Jakanum. Leikurinn var mjög hraður og fjörugur framan af en líka ansi harður. Gnúpverjar byrjuðu miklu betur í leiknum og hittu gríðarlega vel og Vestra menn náðu aldrei að brúa það bil. Lokatölur 92-101.

Slæm byrjun Vestra var ekki eina áfallið sem dundi yfir í fyrsta fjórðungi. Liðið varð fyrir þungu höggi þegar þrjá og hálf mínúta voru eftir af fyrsta leikhluta þegar miðherjinn Nemanja Knezevic varð fyrir meiðslum í frákastabaráttu eftir víti. Ekki er vitað hve slæm meiðslin eru á þessu stigi en strax var ljóst að hann myndi ekki taka meiri þátt í leiknum.

Í grófum dráttum má segja að slæm byrjun og þetta högg í raðir liðsins hafi gert það að verkum að leikurinn tapaðist. Þrátt fyrir að missa máttarstólpa út af náðu Vestramenn vopnum sínum í seinni hálfleik. Nebojsa sem var frábær í leiknum minnkaði muninn í 3 stig með flautukörfu þegar þriðja leikhluta lauk og því var útlit fyrir spennandi loka fjórðung. Minnstur var munurinn 2 stig í upphafi fjórða leikhluta 82-84 en þetta áhluap dugði ekki til og því fór sem fór.

Nebojsa  var, eins og áður segir, frábær og dró vagninn með 40 stig og 12 fráköst. Aðrir leikmenn Vestra skoruðu minna en fréttaritara finnst rétt að hrósa liðinu öllu fyrir að láta ekki slá sig út af laginu við að missa Nemanja út og koma til baka jafnvel þótt það hafi ekki dugað til að ná sigri.

Það var annars frábær mæting á Jakann í kvöld og viljum við þakka þeim fjölmörgu áhorfendum sem mættu til að styðja strákana. Það er ómetanlegt fyrir liðið að fá slíkan stuðning.

Áfram Vestri!

Deila