Fréttir

Tilkynning

Körfubolti | 19.03.2010

Í ljósi þeirrar miklu umræðu sem hefur farið fram á samskiptavefum, fréttasíðum og meðal stuðningsmanna KFÍ er rétt að kom á framfæri eftirfarandi atriðum:

 

Stjórnarstörf í félagsstarfi eru sjálfboðastörf og því miður eru vandfundnir þeir einstaklingar sem geta gefið sig í starfið. Hjá KFÍ hafa stjórnir undanfarinna ára tekist að koma rekstri félagsins á réttan kjöl, því til viðbótar státar félagið af öflugum yngri flokkum og meistaraflokk sem spilar nú aftur meðal bestu liða Íslands.  Það hafa allir átt sinn þátt í þeirri velgengni leikmenn, þjálfari, stuðningsmenn og stjórn. Það er afar auðvelt að gagnrýna störf stjórnar og enn auðveldar að gera það með óréttmætum hætti.  Sú gagnrýni sem nú er uppi varðandi stjórnarstörf er ómakleg,  þar sem þeir aðilar sem hafa unnið að málefnum stjórnar (og nú er vegið að)  hafa gert það með heildarhagsmuni KFÍ að leiðarljósi.  Gagnrýni þarf fyrst og fremst að vera málefnaleg og byggja á staðreyndum málsins, sem ólíklegt er að öllum þeim sem hafa tekið þátt í gagnrýninni sé kunnugt.   

 

Varðandi mál Borce  þá vísast í eftirfarandi frétt frá karfan.is ("Borce Ilievski ekki með KFÍ áfram") þar sem sagt er:  „...hann [Borce] og félagið hafi ekki verið sammála um framtíðarplön félagsins og því hafi verið best að slíta samstarfinu".   Af þessum ummælum Borce má sjá að það hafi verið sameiginleg ákvörðun um að slíta samstarfinu vegna skoðanaágreinings.  Það er trúnaðarmál stjórnar og þjálfara hvaða atriði það eru nákvæmlega sem valda þessum skoðanaágreiningi, enda um samband stjórnar og launþega að ræða sem ekki er hægt að opinbera.  Borce var í fullu starfi sem þjálfari meistaraflokks karla og sem yfirþjálfari yngri flokka félagsins og því afar mikilvægt að slíkur aðili deili skoðunum stjórnar.    Eins og í öllum ágreiningsmálum þá er rót vandans fólgin í misjöfnum skoðunum.  Stjórn þarf því að taka á slíku eftir bestu getu og taka ákvarðanir um hvað sé félaginu fyrir bestu út frá því.  Eftir stendur að það var sameiginleg ákvörðun aðalstjórnar KFÍ að gera þetta samkomulag við Borce, þeirri ákvörðun er ekki hægt að breyta og ágreiningsatriði er ekki hægt að ræða opinberlega enda um trúnaðarmál að ræða sem bundin eru ráðningarsamningum.

 

Það er vonandi að nú verði hægt að vinna að velgengni KFÍ á næstu árum og hægt verði að nýta sér þann kraft sem býr í því fólki sem hefur sýnt ofangreindu máli áhuga til þess að auka  vegsemd félagsins.

 

Undirrituðum hefur verið falið að vinna fyrir félagið fram til næsta aðalfundar og var það mat okkar að nauðsynlegt væri,  í ljósi aðstæðna, að ofangreind tilkynning kæmi fram.

Með körfuboltakveðju,

Guðni Guðnason
Shiran Þórisson

Deila