Fréttir

Topplið Skallagríms lagt að velli

Körfubolti | 29.01.2018
Hinrik Guðbjartsson fór mikinn í liði Vestra á föstudaginn.
Hinrik Guðbjartsson fór mikinn í liði Vestra á föstudaginn.

Vestri hafði betur gegn toppliði Skallagríms á heimavelli síðastliðinn föstudag 95-89. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur í baráttunni í efri hluta 1. deildar og gæti vegið þungt þegar upp er staðið. Skallagrímur situr þó enn á toppi deildarinnar en aðeins tveimur stigum á undan Vestra, Breiðabliki og Hamri. Í kvöld fer svo fram annar toppbaráttuleikur þegar Snæfell mætir á Jakann en Hómarar eru skammt undan þessum liðum á stigatöflunni og verma nú fimmta sætið. Leikurinn hefst kl. 19:15 og nú verður kátt á Jakanum því áhorfendabekkirnir verða dregnir út í fyrsta sinn síðan nýja gólfið var tekið í notkun.

Leikurinn á föstudag gegn Skallagrími var hnífjafn og spennandi, rétt eins og fyrri leikur liðanna í Fjósinu í Borgarnesi í haust. Frábær fyrri hálfleikur hjá Vestra gerði sennilega útslagið, einkum annar fjórðungurinn sem Vestri vann 33-25. Hinrik Guðbjartsson átti stórkostlega innkomu í sínum fyrsta heimaleik með Vestra en hann lék með liðnu á síðasta tímabili. Á átta mínútum skoraði hann 16 stig og var með 71% skotnýtingu. Því miður meiddist Hinrik undir lok háflleiksins og gat ekki tekið þátt í leiknum eftir það. Skotnýting Vestra var með miklum ágætum og gerði útslagið. Liðið var með 44% nýtingu í þriggjastiga skotum og 57% tveggja í tveggja stiga skotum.

Það verður spennandi að sjá liðið í kvöld og hvetjum við alla til að mæta á Jakann og styðja við bakið á strákunum. Áfram Vestri!

Hér að neðan má sjá viðtal við Yngva Gunnlaugsson eftir sigurinn gegn Skallagrími sem Jakinn-TV birti eftir leik:

Deila