Fréttir

Tveir heimaleikir og einn útileikur um helgina

Körfubolti | 16.10.2014
Kjartan Helgi Steinþórsson leikstjórnandi KFÍ stendur í ströngu um helgina. Auk þess að spila tvo leiki með karlaliðinu eru tveir flokkar sem hann þjálfar að spila á fjölliðamótum fyrir sunnan.
Kjartan Helgi Steinþórsson leikstjórnandi KFÍ stendur í ströngu um helgina. Auk þess að spila tvo leiki með karlaliðinu eru tveir flokkar sem hann þjálfar að spila á fjölliðamótum fyrir sunnan.

Það verður í nógu að snúast hjá leikmönnum KFÍ um helgina. Karlaliðið mætir Hetti frá Egilsstöðum í tveimur heimaleikjum á laugardag og sunnudag. Leikurinn á laugardag hefst klukkan 16:00 og leikurinn á sunnudag kl. 14:00. Í 1. deildinni eru leiknar þrjár umferðir og til að spara ferðakostnað munu Hattarmenn leika báða útileiki sína við KFÍ í sömu ferðinni. Við hvetjum alla til að mæta og styðja við bakið á strákunum í þessum mikilvægu leikjum! Árskort verða til sölu á leikjunum og um að gera að tryggja sér kort sem fyrst.

 

Kvennalið KFÍ spilar sinn fyrsta leik í 1. deild kvenna um helgina þegar liðið mætir Njarðvík á útivelli á laugardag. Stelpurnar hafa æft vel að undanförnu og munu leggja allt í sölurnar gegn sterku liði Njarðvíkur. Þeim mun auk þess berast liðstyrkur um helgina þegar bandarískur spilandi þjálfari liðsins, Labrenthia Murdock ,  mætir til leiks. Labrenthia getur bæði leyst stöðu bakvarðar og framherja en hún lék með Lewis University í Texas í háskólaboltanum og hefur auk þess spilað sem atvinnumaður í Bandaríkjunum með liðinu Chicago Storm. Á heimasíðu Lewis háskólans má lesa umfjöllun um samning Labrenthiu við KFÍ og hér má sjá myndband með tilþrifum hennar. Einnig hefur KFÍ gert venslasamning við Breiðablik og munu því þrjár Blikastúlkur styrja liðið enn frekar.

 

En það er fleira um að vera hjá KFÍ liðum um helgina því minniboltalið drengja og 9. flokkur drengja taka þátt í fjölliða mótum um helgina fyrir sunnan.

 

9. flokkur keppir á fyrsta fjölliðamóti vetrarins í Íþróttahúsi Kennaraháskólans. Þar mæta þeir Hamri, Sindra, Ármanni og Njarðvík B. Tíu strákar fara í þessa keppnisferð undir stjórn kempunnar Guðna Guðnasonar. Kjartan Helgi Steinþórsson er þjálfari liðsins en er eðlilega upptekinn í leikjum meistaraflokks um helgina og því hleypur Guðni í skarðið en hann hefur komið að þjálfun þessara stráka til margra ára.

 

Minnibolti drengja eru að fara á sitt allra fyrsta fjölliðamót í Rimaskóla. Mótherjarnir eru Þór Akureyri, Breiðablik C og Fjölnir B. Þjálfarar þeirra eru Kjartan Helgi og Haukur Hreinsson sem báðir eru uppteknir við heimaleikina um helgina og því leysir þá af Snæfellingurinn Atli Rúnar Sigþórsson, sem á einmitt dreng í hópnum. Hann hefur alloft hlaupið í þjálfaraskarðið í þessum hópi en hann spilaði um langt árabil með meistaraflokki Snæfells. Drengjahóparnir tveir ferðast saman í rútu til og frá Reykjavík um helgina ásamt fararstjórum og það verður því vafalaust mikið stuð á liðinu.

Deila