Fréttir

Tveir leikir framundan

Körfubolti | 28.01.2015
Strákarnir mæta Hamri á föstudag og stelpurnar Tindastól á laugardag.
Ljósmynd: Benedikt Hermannsson.
Strákarnir mæta Hamri á föstudag og stelpurnar Tindastól á laugardag. Ljósmynd: Benedikt Hermannsson.

Um helgina fara fram heimaleikir bæði hjá karla- og kvennaliði KFÍ. Karlaliðið mætir Hamri frá Hveragerði í 1. deild karla, föstudaginn 30. janúar kl. 19.15, og kvennaliðið mætir Tindastól frá Sauðrárkróki í 1. deild kvenna laugardaginn 31. janúar kl. 16:00.

 

Hamarsmenn eru með sterkt lið sem er til alls líklegt og situr í þriðja sæti deildarinnar. Gengi þeirra í upphafi árs, undir stjórn nýs þjálfara Hallgríms Brynjólfssonar, hefur reyndar verið missjafnt en í síðustu umferð sigruðu þeir Þór Akureyri sannfærandi og eru því e.t.v. komnir á beinu brautina á ný. Það verður ekki annað sagt en að gengi okkar manna hafi einnig verið brokkgeng á nýju ári en KFÍ liðið hefur ýmist átt skínandi góða leiki eða arfaslaka. Í ljósi gengis liðanna í síðustu leikjum má ætla að einbeiting og dagsform skeri úr um sigurvegarann.

 

Á laugardaginn mæta KFÍ konur svo liði Tindastóls en liðin hafa þegar mæst einu sinni í vetur og þá unnu okkar stúlkur stórsigur á Skagfirðingum á útivelli 46-71. Sá leikur hefur þó ekkert að segja um helgina enda má ætla að Tindastólsstúlkur mæti mun sterkari til leiks en í fyrri leiknum þar sem þær hafa nælt sér í nýjan Kana, Tikeyia Ann Johnson, sem fór mikinn í fyrsta leik sínum með liðinu í síðustu umferð gegn Fjölni og skoraði 29 stig. Tindastólsstúlkur eru því sýnd veiði en ekki gefin og má ætla að framlag annarra leikmanna en Kananna í liðunum muni skera úr um sigurvegara leiksins.

 

Að vanda verður svo fírað upp í Muurikka pönnunni fyrir leikinn á föstudagskvöld og boðið upp á ljúffenga hamborgara og á laugardaginn verður sjoppan að sjálfsögðu opin með góðum veitingum.

 

Tveir spennandi leikir sem við hvetjum alla stuðningsmenn KFÍ til að sækja!

Deila