Fréttir

Tveir spennandi leikir gegn Grindavík í mfl. kvenna töpuðust naumt

Körfubolti | 30.10.2011
1 af 4

Mfl. kvenna fékk dömurnar frá Grindavík í heimsókn um helgina og var leikið laugardag og sunnudag. Leikirnir voru mjög spennandi og var mikill fjöldi áhorfenda mætt til að styðja við bakið á stúlkunum okkar.

Fyrri leikurinn var jafn alveg fram í þriðja leikhluta, en þá tóku gestirnir ágætis sprett og vorum við að elta þær og ekkert benti til annars en að Grindvíkingar myndu landa sigrinum auðveldlega. En KFÍ dömurnar voru á öðru máli og með mikilli baráttu komust þær inn í leikinn aftur og síðustu mínúturnar voru æsispennandi og dansaði boltinn hringdans beggja meginn vallarins, en ekki vildi hann ofan í þrátt fyrir miklar tilraunir. Fór svo að lokum að gestirnir fóru með sigur af hólmi og lokatölur 46-48.

Stigaskor: Sólveig 12, Anna Soffía 9, Anna Svandís 7,  Hafdís 7, Eva 7 , Vera 2, Lilja 2. 

Seinni leikurinn var í dag og var jafn til að byrja með, en í þetta sinni voru það þriggja stiga skot gestanna sem rötuðu vel í körfur okkar og gerði það gæfumuninn. Lokatölur 47-55 og fóru stelpurnar suður með sjó með 4 góð stig með sér í farteskinu heim. Barátta beggja liða var til fyrirmyndar og sáust góðir taktar og gefur þetta fyrirheit um skemmtilegan körfuboltavetur hjá liðinum.

Stigaskor í dag: Sólveig 14, Anna Svandís 9, Anna Soffía 7, Hafdís 7, Eva 6, Marelle 2, Vera 2.

Það sem vantaði upp á hjá KFÍ var að stíga út og vera grimmari í fráköstin. En þess ber þó að geta að þetta eru fyrstu leikir þeirra og mikill efniviður sem Pétur hefur og enginn örvæntin þar á bæ. Allar stelpurnar börðust vel og með smá heppni hefði annar eða báðir leikirnir hæglega getað orðið eign okkar. En að þessu sinni voru það stúlkurna frá Grindavík sem áttu þessi fjögur stig skilið og óskum við þeim góðrar heimferðar og þökkum heimsóknina vestur.

Deila