Fréttir

U16 ára landslið drengja æfir á Ísafirði

Körfubolti | 20.07.2018
U16 ára landslið drengja í körfubolta á æfingu í íþróttahúsinu Torfnesi í morgun.
U16 ára landslið drengja í körfubolta á æfingu í íþróttahúsinu Torfnesi í morgun.
1 af 2

Landslið U16 ára drengja í körfubolta æfir nú á Ísafirði þessa dagana en liðið er að búa sig undir Evrópumeistaramót U16 ára drengjalandsliða, sem fram fer í Sarajevo í Bosníu dagana 9-19. ágúst næstkomandi. Hópurinn kom akandi vestur í gærkvöldi og æfir fram á sunnudag, alls sex æfingar og einn æfingaleik. Aðstæður á Ísafirði eru hinar bestu og hafa Ísafjarðarbær og fyrirtæki í bænum greitt götu liðsins í hvítvetna.

Æfingahópurinn telur 14 drengi, þar af Vestramennina og bræðurna Hilmi og Huga Hallgrímssyni. Þrír þjálfarar stýra æfingum en það eru Ágúst Björgvinsson úr Val, sem er aðalþjálfari landsliðsins, og aðstoðarþjálfararnir Snorri Örn Arnaldsson úr Stjörnunni og Oddur Benediktsson úr Hamri.

Landsliðið vann til silfurverðlauna á Norðurlandameistaramótinu í Kisakallio í Finnlandi í byrjun júlí en segja má að strákarnir hafi orðið Norðurlandameistarar þar sem þeir lögðu allar hinar Norðurlandaþjóðirnar. Það voru hins vegar Eistlendingar sem fóru heim með gullið.

Móttökurnar fyrir liðið hér á Ísafirði eru einstaklega góðar og þar vegur þyngst framlag eigenda Hótels Ísafjarðar sem styðja afar höfðinglega við heimsóknina, bæði í gistingu og mat. Veitingahúsið Tjöruhúsið í Neðstakaupstað tók einnig veglega á móti hópnum í gærkvöldi og vakti stormandi lukku auk þess sem veitingahúsin Café Edinborg, Thai Tawee og Hamraborg styðja dyggilega við hópinn á meðan á dvöl hans stendur. Ísafjarðarbær veitir síðan aðgang að íþróttahúsinu á Torfnesi þar sem aðstaða til æfinga er eins og best verður á kosið, ekki síst með tilkomu nýja gólfsins í húsinu. Fá Ísafjarðarbær og fyrirtækin öll bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Stífar æfingar bíða svo liðsins fram að Evrópumeistaramótinu en strákarnir hittast að nýju í Reykjavík á föstudag í næstu viku og æfa þaðan í frá nær alla daga fram að móti.

Blásið verður til æfingaleiks á Torfnesi á morgun, laugardag, kl. 17, þar sem Bláir munu keppa við Hvíta. Leikurinn er öllum opinn og væri gaman ef sem flest körfuboltaáhugafólk á svæðinu sæi sér fært að kíkja við.

 

 

Deila