Fréttir

Ungviðið stóð sig vel á Sambíómótinu

Körfubolti | 06.11.2013
Hilmir Hallgrímsson með boltann. Mynd Karfan.is
Hilmir Hallgrímsson með boltann. Mynd Karfan.is
1 af 2

bb.is | 06.11.2013 |

Tuttugu og sjö börn á aldrinum 6-11 ára hjá KFÍ tóku þátt í Sambíó mótinu í körfubolta sem Íþróttafélagið Fjölnir stóð fyrir um síðustu helgi. „Þau stóðu sig öll með prýði. Við fórum með fjögur lið til keppni, eitt lið í flokki 6-7 ára og þrjú lið keppenda á aldrinum 9-11 ára, tvö stelpulið og eitt strákalið. Þau eru öll að sýna miklar framfarir á þeim stutta tíma sem þau hafa æft og greinilegt að þau eru að spila með ákveðnum hætti í stað þess að hlaupa bara um með boltann eins og eðlilegt er til að byrja með,“ segir Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglingaráðs KFÍ, en hún var jafnframt einn fararstjóra í ferðinni. 

„Yngstu krakkarnir voru þarna undir styrkri stjórn Stefaníu Ásmundsdóttur, sem keppti með meistaraflokki KFÍ um árið. Stelpuliðin þjálfar Heiðdós Hrönn Dal Magnúsdóttir af miklum myndugleik. Þeim til aðstoðar er Sunna Sturludóttir. Jason Anthony Smith, sem leikur með meistaraflokki karla, þjálfar drengjaliðið en það er sett saman af byrjendum og reynsluboltum og stóð liðið sig einnig mjög vel,“ segir Birna. „Ég tel að ferðin hafi heppnast afskaplega vel. Það var tvísýnt hvort við kæmust á föstudeginum vegna veðurútlits sem svo rættist úr og við keyrðum svo heim í blíðskaparviðri á sunnudag,“ segir hún. 

Ríflega 460 börn frá fjölmörgum félögum, einkum af höfuðborgarsvæðinu, tóku þátt í mótinu. Birna segir að Fjölnismenn eigi hrós skilið fyrir gott mót. Keppendur gistu í Rimaskóla en keppt var á tveimur mismunandi stöðum í Grafavogi. Sambíóin buðu öllum í bíó og á laugardagskvöldinu var bæði blysför og kvöldvaka. Þessi vaski hópur KFÍ krakka heldur nú æfingum áfram af fullum krafti og stefnir næst á stærsta körfuknattleiksmót landsins í þessum aldursflokki en það er hið árlega Nettómót í Reykjanesbæ sem haldið verður 1.-2. mars á næsta ári. 

 

harpa@bb.is

Deila