Fréttir

Uppskeruhátíðin sjaldan eða aldrei fjölmennari

Körfubolti | 03.05.2016
Foreldrar og systkini fjölmenntu með iðkendum á Uppskeruhátíðina í gær.
Foreldrar og systkini fjölmenntu með iðkendum á Uppskeruhátíðina í gær.
1 af 6

Uppskeruhátíð yngri flokka KFÍ (Vestra) fór fram á Torfnesi í gær og muna elstu menn varla eftir öðru eins fjölmenni á sambærilegum hátíðum félagsins. Þetta var jafnframt síðasta uppskeruhátíðin undir hinu gamalgróna nafni Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar og við tekur nafn okkar nýja fjölgreinafélags, Vestri.

Vel yfir 100 iðkendur voru mættir til leiks í gær til að taka við viðurkenningum frá þjálfurunum sínum og foreldrar og systkini fjölmenntu með þeim. Í lokin var slegið upp mikilli pylsuveislu og allir fengu íspinna frá Kjörís í eftirrétt. Einnig voru iðkendur verðlaunaðir með gjafabréfi upp á ís með dýfu frá N1 á Ísafirði

Það má því með sanni segja að vetrarstarfinu hafi verið slúttað með glans í gær en starfi yngri flokkanna í vor er hvergi nærri lokið. Framundan eru Körfuboltabúðirnar á Ísafirði í byrjun júní auk þess sem sumaræfingar verða í boði fyrir ólíka aldurshópa. Verða þær auglýstar nánar þegar nær dregur.

Barna- og unglingaráð KFÍ þakkar öllum iðkendum og þjálfurum fyrir skemmtilegt samstarf í vetur en þessi stóri hópur hefur verið félaginu til mikils sóma hvert sem hann hefur lagt leið sína um landið. Jafnframt þökkum við foreldrum fyrir samstarfið en án öflugs foreldrastarfs er borin von að reka íþróttafélag á borð við okkar. Síðast en ekki síst fá öll þau fyrirtæki og þeir einstaklingar, sem lagst hafa á árarnar með yngri flokka starfinu í vetur, okkar bestu þakkir en öflugur stuðningur frá samfélaginu er ómetanlegur.

Myndir frá Uppskeruhátíðinni: Ingi Björn Guðnason.

Deila