Fréttir

Veittu bestu liðunum harða keppni

Körfubolti | 11.04.2017
Ekki náðist að smella af liðsmynd um helgina en þessi mynd var tekin af 9. flokki fyrr í vetur. Á myndina vantar Þórunni Birnu Bjarnadóttur og Júlíönnu Lind Jóhannsdóttur.
Ekki náðist að smella af liðsmynd um helgina en þessi mynd var tekin af 9. flokki fyrr í vetur. Á myndina vantar Þórunni Birnu Bjarnadóttur og Júlíönnu Lind Jóhannsdóttur.

Stúlkurnar í 9. flokki Kkd. Vestra kepptu í sínu síðasta Íslandsmóti vetrarins um nýliðna helgi og lá leiðin til Grindavíkur að þessu sinni í sjálfan A-riðil mótsins. Þar mættu Vestrastelpurnar fjórum bestu liðum landsins í sínum aldurshópi en auk Grindvíkinga léku þær við Keflavík, Njarðvík og Hamar.

Þetta var í fyrsta sinn sem þessi hópur nær upp í A-riðil en það gerðu þær eftir að hafa sigrað í fjórðu umferð mótsins sem fram fór í Bolungarvík. Fyrirfram var vitað að keppnin yrði hörð enda eru Suðurnesin þekkt fyrir öfluga kvennakörfu og andstæðingarnir margir hverjir búnir að æfa af krafti í áraraðir. Vestraliðið er aftur á móti mjög ungt, margar stúlknanna stigu sín fyrstu skref í körfubolta á síðasta vetri og jafnvel í vetur og aðeins eru um fjögur ár síðan þær reynslumestu í liðinu hófu að æfa íþróttina.

Vestrastelpur léku samtals fjóra leiki og þótt þeir hafi allir tapast skein leikgleðin og stemmningin engu að síður af liðinu. Þær börðust um alla lausa bolta og gáfu hinum liðunum ekkert eftir í keppnisskapi.

Nökkvi Harðarson, þjálfari stúlknanna síðustu tvö ár, er að vonum ánægður með hversu langt þær hafa náð á skömmum tíma: „Það má sjá miklar framfarir hjá þessum hópi í vetur en þær byrjuðu í C-riðli og unnu sig alla leið upp í A-riðil. Eftir frábært tímabil mega stelpurnar bera höfuðið hátt og vera stoltar af afrakstri vetrarins. Þær hafa verið frábærar í alla staði og þær fengu til dæmis mikið hrós úr öllum áttum um helgina.“

Þær sem skipuðu Vestraliðið að þessu sinni voru: Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Ivana Yordanova, Hjördís Harðardóttir, Thelma María Heiðarsdóttir, systurnar Natalía Dröfn og Hera Magnea Kristjánsdætur, Þórunn Birna Bjarnadóttir, Rakel Damilola Adeleye og Júlíana Lind Jóhannsdóttir.

Það verður sannarlega spennandi og skemmtilegt að fylgjast með þessum kraftmiklu Vestrastelpum næsta vetur enda ljóst að þær eiga enn mikið inni í körfuboltaíþróttinni.

Deila