Fréttir

Vel heppnað lokamót þeirra yngstu

Körfubolti | 01.05.2019
Eldri hópurinn (3.-6.bekkur) sem keppti á Húsasmiðjumótinu 2019.
Eldri hópurinn (3.-6.bekkur) sem keppti á Húsasmiðjumótinu 2019.
1 af 2

Það var svo sannarlega mikið stuð á körfuboltamóti yngstu iðkendanna í Kkd. sem fram fór í íþróttahúsinu Torfnesi á mánudag. Þetta síðasta innanfélagsmót vetrarins er kennt við Húsasmiðjuna, sem er einn af styrktaraðilum körfunnar, en einnig lagði N1 mótshöldurðum lið að þessu sinni. Yngstu aldurshóparnir eru nú farnir í sumarfrí frá hefðbundnum vetraræfingum þótt margt skemmtilegt eigi þó eftir að dúkka upp þegar líður á sumarið.

Hátt í 70 börn mættu til leiks á Húsasmiðjumótið en það voru einkum elstu iðkendur deildarinnar sem héldu utan um liðin ásamt nokkrum liðsmönnum meistaraflokks karla og þjálfurum yngstu hópanna. Krakkar í 1.-2. bekk riðu á vaðið og kepptu sín á milli og svo tóku eldri krakkarnir í 3.-6. bekk við og spiluðu af kappi. Engin stig eru talin á þessu innanfélagsmóti en allir fóru keppendur heim með gjafabréf upp á sumarís með dýfu í boði N1.

Iðkendur í 1.-4. bekk hafa nú lokið æfingum í vetur en aðrir í deildinni æfa fram að Körfuboltabúðum Vestra sem fram fara í byrjun júni að venju. Krakkarnir í 5.-6. bekk eiga ennþá eitt fjölliðamót til góða í Íslandsmótinu en það fer fram á Akureyri um miðjan maí og verður væntanlega mikið um dýrðir á því móti en Akureyringar hafa lofað góðri helgi.

Yngstu iðkendurnir geta svo látið sig hlakka til aðeins meira körfubolta því þeir mega skrá sig í hinar svokölluðu Grunnbúðir Körfuboltabúðanna, en Grunnbúðir eru ætlaðar fyrstu fjórum árgöngum í grunnskóla. Auk þess verður boðið verður upp á tvö styttri sumarnámskeið fyrir þennan aldurshóp, sem auglýst verða nánar síðar.

Uppskeruhátíð allra yngri flokka körfunnar fer síðan fram mánudaginn 20. maí en frekari upplýsingar um hana koma fram þegar nær dregur.

Deila