Fréttir

Vel heppnuð Spánarferð að baki

Körfubolti | 01.07.2017
BIBA hópurinn samankominn ásamt þjálfurum búðanna. Allir þátttakendur fengu keppnisbúning til eignar.
BIBA hópurinn samankominn ásamt þjálfurum búðanna. Allir þátttakendur fengu keppnisbúning til eignar.
1 af 8

Vel heppnuð æfingaferð Kkd. Vestra til Spánar er nú að baki en flestir úr hópnum komu til landsins seint í gærkvöldi. Nokkrir urðu þó eftir á Spáni í sumarleyfum með fjölskyldum sínum. Óhætt er að fullyrða að þessi fyrsta æfingaferð deildarinnar erlendis í 10 ár hafi staðið undir væntingum og verða slíkar æfinga- eða keppnisferðir á erlenda grundu vonandi fastur liður í starfinu hér eftir.

Alls voru Vestrakrakkarnir 21 talsins, jafnt strákar sem stelpur á aldrinum 13-18 ára og voru sjö foreldrar með í för. Æfingabúðirnar kallast BIBA Camp og eru þær fyrstu sem Borche Ilievski, fyrrum yfirþjálfari KFÍ, stendur fyrir í eigin nafni. Æft var og gist á fjölbreyttu æfingasvæði og sumarbúðum í Amposta Parc í Katalónuhéraði á Spáni og stóðu búðirnar yfir í sjö daga. Verulegur hiti var alla dagana, allt upp í 34 gráður, en krakkarnir sýndu mikinn dugnað og virtust venjast aðstæðum ótrúlega fljótt. Engu að síður var þreytan farin að gera vart við sig undir lok búðanna enda æft 3.-4. sinnum á dag, þótt hvílt væri yfir heitasta tíma dagsins. Sundlaug búðanna var síðan vel nýtt til kælinga milli æfinga.

ÍR og Þór Þorlákshöfn voru einnig með stóra æfingahópa í búðunum og kynntust íslensku krakkarnir og fararstjórar allir ágætlega innbyrðis. Í þjálfarateymi Borche voru færir þjálfarar víða að úr Evrópu; frá Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Danmörku, Serbíu, Svartfjallalandi og Íslandi og voru æfingarnar bæði krefjandi og uppbyggilegar. Krakkarnir fara allir heim með betri grunn í körfubolta en þegar þau komu og sá var einmitt tilgangurinn.

Ferðin var farin með styrk fjölmargra aðila á norðanverðum Vestfjörðum en krakkarnir héldu m.a. körfuboltamaraþon í vor til fjáröflunar og söfnuðu myndarlegri upphæð til fararinnar. Kkd. Vestra þakkar af heilum hug stuðninginn við krakkana og körfuna en fullyrða má að ferðin muni skila sér í enn meiri áhuga og árangri krakkanna í íþrótt sinni á komandi misserum.

Enn og aftur er gaman að nefna að körfuboltakrakkarnir okkar koma víðsvegar að af norðanverðum Vestfjörðum úr öllum byggðakjörnum, allt frá Hólmavík til Þingeyrar, ef frá er talin Flateyri. Ferð á borð við þessa þéttir raðirnar og úr verður vinskapur sem í mörgum tilfellum endist ævina langa.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir, m.a. af verðlaunahöfum í einstökum æfingahópum en keppt var í 1 á 1, þriggjastiga keppni og vítakeppni. Mikilvægasti leikmaður búðanna (MVP) var síðan valinn sameiginlega af öllum þjálfurum, þvert á hópa, og það var Vestramaðurinn Hilmir Hallgrímsson sem hreppti titilinn.

 

 

Deila