Formenn, þjálfarar og fyrirliðar liðanna sem leika ásamt Vestra í fyrstu deild karla í vetur virðast ekki hafa mikla trú góðu gengi liðsins. Á blaðamannafundi sem haldin var í hádeginu í dag var árleg spá fyrir komandi tímabil kynnt. Samkvæmt henni mun lið Vestra hafna í áttunda og næstneðsta sæti deildarinnar á undan Ármanni, rétt eins og á síðasta tímabili.
Kannski má segja að spáin sé eðlileg í ljósi þess að liðið hefur misst nokkra leikmenn frá síðasta tímabili en á móti kemur að efnilegir leikmenn hafa bæst í hópinn sem hafa styrkt liðið verulega. Þar til annað kemur í ljós verður þessi ágæta spá því ekki annað en gott elsdneyti til að fóðra sigurvilja strákanna og afsanna hana rækilega.
Fyrsti leikur Vestra í deildinni fer fram á fimmtudag þegar liðið fer í Smárann í Kópavogi þar sem það mætir Breiðablikii sem er spáð fjórða sæti deildarinnar. Fyrsti heimaleikur liðsins fer svo fram á sunnudaginn en þá mæta strákarnir Fjölni hér heima á Jakanum. Fjölni er einmitt spáð fyrsta sæti deildarinnar samkvæmt fyrrnefndri spá. Við hvetjum að sjálfsögðu alla Ísfirðinga og nærsveitarmenn til að mæta á Jakann á sunnudag til að hvetja strákana og leggja sitt á vogarskálarnar til að afsanna spána. Að sjálfsögðu hvetjum við líka alla Ísfirðinga á höfuðborgarsvæðinu til að gera slíkt hið sama í Smáranum á fimmtudag.
Áfram Vestri!
Deila