Fréttir

Vestramenn í undanúrslit á laugardag

Körfubolti | 09.05.2018
Vestramenn ásamt Nebojsa Knezevic, þjálfara, á Scania-mótinu í Svíþjóð um páskana.
Vestramenn ásamt Nebojsa Knezevic, þjálfara, á Scania-mótinu í Svíþjóð um páskana.

Vestramenn, sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms, leika gegn Valsmönnum í undanúrslitum Íslandsmótsins í 10. flokki drengja, á laugardaginn kemur, 12. maí, kl. 10:00. Leikurinn fer fram í Ljónagryfjunni, íþróttahúsinu í Njarðvík, en síðar um morguninn fer fram undanúrslitaleikur KR og Stjörnunnar. Sigurvegarar viðureignanna eigast svo við í úrslitaleiknum, sem fram fer á sama stað á sunnudagsmorgun kl. 10:00.

Liðin fjögur hafa att kappi hvert við annað í allan vetur í A-riðli Íslandsmótsins og tryggðu sér sæti í úrslitakeppni helgarinnar í lokaumferð Íslandsmótsins sem fram fór í DHL-höll KR-inga fyrir þremur vikum. Fjölnir og ÍR hafa einnig blandað sér í baráttuna í A-riðli í vetur.

Ekkert liðanna hefur sýnt yfirburði í vetur enda hafa úrslit leikja verið afar jöfn og liðin unnið hvert annað á víxl. Sum liðanna mættust einnig á Scania Cup í Svíþjóð um páskana en það er sterkt boðsmót norrænna félagsliða. Það má því búast við æsispennandi undanúrslitaleikjum á laugardag og ekki síðri úrslitaleik á sunnudag.

Þjálfarar Vestramanna eru Nebojsa Knezevic og Pálmi Þór Sævarsson.

Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að fjölmenna í íþróttahúsið í Njarðvík á laugardagsmorgun til að styðja strákana í því að tryggja sér sæti í úrslitunum.

Deila