Fréttir

Vestri með tvo landsliðsmenn

Körfubolti | 21.04.2021
Friðrik Heiðar Vignisson og Alexander Leon Kristjánsson eru fyrstu landsliðsmenn Vestra í rafíþróttum.
Friðrik Heiðar Vignisson og Alexander Leon Kristjánsson eru fyrstu landsliðsmenn Vestra í rafíþróttum.

Þeir Alexander Leon Kristjánsson og Friðrik Heiðar Vignisson úr Vestra eiga sæti í fyrsta landsliði Íslands í NBA2K sem tekur þátt í FIBA ESPORT OPEN III-mótinu á föstudaginn kemur! Þetta er fyrsta rafíþróttalið KKÍ sem mætir til leiks á vegum sambandsins en þátttaka í mótinu er liður í samstarfi KKÍ og Rafíþórttasamtaka Íslands.

Ljóst er að þeir félagar eru fyrstu landsliðsmenn Vestra í rafíþróttum og líklega fyrstu vestfirsku landsliðsmennirnir í slíkum íþróttum.

Friðrik Heiðar er fyrirliði íslenska liðsins. Friðrik er ekki ókunnugur landsliðsbúningnum því hann hefur leikið fyrir Íslands hönd með U-15 landsliði Íslands í körfubolta og er auk þess að einn af lykilmönnum meistaraflokks Vestra í 1. deild. Alexander Leon Kristjánsson æfði körfubolta með yngri flokkum Vestra og KFÍ og hefur verið í kringum starfið alla tíð, og m.a. sinnt mikilvægum störfum á borð við tölfræðiskráningu.

Keppni hefst föstudagin 23. apríl og verður Ísland í riðli með þrem öðrum liðum. Fyrsti leikur hefst kl. 17:00 og verður svo leikið aftur kl. 17:40 og 18:20.

Alls eru fjórir riðlar með fjórum liðum í Evrópudeildinni. Tvö efstu liðin í hverjum riðli fara áfram í 8-liða úrslitin sem leikin verða á laugardeginum 24. apríl og fjögur bestu fara í lokaúrslit á sunnudegi.

Ísland er í riðli með Kýpur, Bosníu og Serbíu og mjög líklega verður einnig hægt að fylgjast með keppinni beint á rafíþróttarrás Stöðvar 2 Sport sem og á netinu á miðlum FIBA (Youtube, Facebook og Twitch) undir merkinu #FIBAesportsOpen. Allir tenglar á útsendingar á netinu verða svo aðgengilegir einnig á kki.is.

Sex leikmenn eru skráðir á mótið að þessu sinni og eru fimm sem spila hvern leik. Um tímamót er að ræða í sögu KKÍ þar sem þetta er fyrsta rafíþróttalið KKÍ sem mætir til leiks á vegum sambandsins og við hæfi að það sé að gerast nú á 60 ára afmælisári sambandsins.

Landslið Íslands í NBA2K 2021 skipa eftirtaldir leikmenn:

#24 · Agnar Daði Jónsson · 28 ára · Reykjavík

# 9 · Alexander Leon Kristjánsson · 19 ára · Ísafjörður

#11 · Björgvin Lúther Sigurðarson · 43 ára ·Reykjavík

#12 · Friðrik Heiðar Vignisson (Fyrirliði) · 18 ára · Ísafjörður

# 7 · Lórenz Geir Þórisson · 17 ára · Hafnarfjörður

#34 · Róbert Ingi Gunnarsson · 18 ára · Hafnarfjörður

Liðsstjórar: Aron Ólafsson og Jóhannes Páll Durr frá RÍSÍ og Kristinn Geir Pállson frá KKÍ. 

Heimasíða mótsins:

www.fiba.basketball/esports/open3/2021

Tímasetningar leikja:

Föstudagur 23. apríl

  1. 17:00 gegn gegn Kýpur
  2. 17:40 gegn Bosníu
  3. 18:20 gegn Serbíu

Laugardagur 24. apríl

(8-liða úrslit fyrir efstu tvö liðin í riðlinum)

Sunnudagur 25. apríl

(Undanúrslit og úrslit)

 

Deila