Fréttir

Við spiluðum sem ein heild og uppskárum eftir því

Körfubolti | 16.09.2010
Darko var öflugur með 15 stig og 11 fráköst.  Mynd:  Tomasz Kolodzejski / karfan.is
Darko var öflugur með 15 stig og 11 fráköst. Mynd: Tomasz Kolodzejski / karfan.is
KFÍ sýndi það í kvöld að við erum lið sem ætlar sér að berjast fyrir tilverurétt sínum í efstu deild. Liðsandinn er frábær og menn að berjast fyrir hvorn annan. 


Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þessi leikur yrði skemmtilegur. Bæði lið sýndu góða takta og margar frábærar körfur litu kvöldsins ljós. Stjarnan náði forystu og leiddi framan af leik en eftir að fyrsta leikhluta lauk var þó staðan orðin jöfn aftur 25-25. Mikil barátta sást og bæði lið að henda sér á bolta og skoppa út um allt.

Í öðrum leikhluta náðu Stjörnumenn ágætis leikkafla og staðan í hálfleik var 51-45 og þeir greinilega sprækari. Þá var komið að hálfleiksræðu sem B.J þjálfari hélt og var hún algjörlega mögnuð og hefði séra Jón Steingrímsson "Eldprestur" verið fullsæmdur af henni.  Í stuttu máli þá komu KFÍ menn dýrvitlausir til leiks og snéru leiknum gjörsamlega við.  Enda var staðan eftir þriðja leikhluta orðinn 66-68 og allt opið fyrir bæði lið. 

Ef einhver hélt á þessari stundu að fjórði og síðasti leikhluti yrði jafn og spennandi, þá reyndist sá hinn sami ekki sannspár enda varð leikhlutinn það aldrei. Við tókum einfaldlega öll völd og komumst á tímabili 17 stigum yfir.  Svo fór að lokum að við unnum síðasta leikhlutann 40-30 og unnum öruggan og sanngjarnan sigur.

Við vitum að það er klént að segja að ,,liðsheildin hafi unnið þettta" en svo varð raunin í kvöld og hafa verður það er sannara reynist.  Sex leikmenn KFÍ voru með 12 stig eða meira og unnum við frákastaeinvígið 49-35.

Edin til landsins í morgun og spilaði sinn fyrsta leik eftir langt og strangt ferðalag.  Hann er góð viðbót í leikmannafaunu okkar og gefur liðinu aukna dýpt.  Hann var með 18 stig og 9 fráköst á tuttugu og einni mínútu, munar um minna.

Restin af liðinu stóðst fyrsta prófið og gaf BJ öllum tækifæri. Þess má geta að Sigmundur Helgason var hent í djúpu laugina þar sem bæði Ari og Daði voru komnir útaf með 5 villur og stóðst hann prófið, spilaði frábæra vörn og komst á blað með því að fá tvær "góðar" villur. 

Meira er sagt frá leiknum á karfan.is þar sem góð umfjöllun og frábærar myndir eru. Þessi fréttaritari sem hér situr er þreyttur og puttarnir bæði lúnir og bólgnir, einbeitingin í rénum og slén að gera vart við sig.  Því er tímabært að enda þennan pistil með því að minna á að næsti leikur er gegn KR á sunnudagskvöld n.k. í DHL-höllinni.  Að sjálfsögðu hvetjum við alla til að koma og sjá góðan körfubolta. KR er með gríðarlega gott lið og verður gaman að kljást við þá. Þar ræður ríkjum ástsæll vinur okkar, fyrrum leikmaður og þjálfari KFÍ, Hrafn Kristjánsson og við vitum að við eigum von á miklum trakteringum hjá þeim Vesturbæingum.

Allir biðja um kveðjur heim.

Tölfræði leiksins Deila