Fréttir

Yfirlýsing vegna atviks í leik Vestra og ÍA

Körfubolti | 24.10.2016

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra harmar framferði sem leikmaður ÍA, Fannar Freyr Helgason, sýndi í leik ÍA og Vestra sunnudaginn 23. október síðastliðinn.

Atvikið átti sér stað í frákasti eftir vítaskot og hafði þær afleiðingar að leikmaður Vestra, Nökkvi Harðarson, hlaut þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys. Nökkvi var í framhaldinu fluttur á sjúkrahús til aðlynningar og þurfti að dvelja þar yfir nótt til öryggis. Eins og glögglega má sjá á myndbandi af atvikinu fer Fannar af stað með vinstri handlegg niður með síðu en lyftir handleggnum svo upp og keyrir hann í höfuð Nökkva. Ekki þarf að fjölyrða um hve hættulegt slíkt framferði er.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra hefur ákveðið að kæra atvikið ekki til Aga- og úrskúrðarnefndar. Fannar Freyr hefur haft samband við Nökkva og beðist afsökunar á framferði sínu og harmað það. Nökkvi og stjórn Kkd Vestra taka þá afsökunarbeiðni og iðrun góða og gilda og ætlar engum leikmanni að vilja meiða mótherja viljandi.

Atvikið vekur engu að síður upp áleitnar spurningar um háttsemi af þessu tagi ekki síst í ljósi umræðu undanfarin ár, innan íþróttahreyfingarinnar, um höfuðáverka íþróttamanna. Ljóst er að körfuknattleikshreyfingin í heild sinni þarf að taka þá umræðu til sín og taka á þessum málum með ákveðnum hætti. Gildir það jafnt um leikmenn, dómara, þjálfara, aðildarfélög og Körfuknattleikssamband Íslands.

Virðngarfyllst,

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra.

Deila