Fréttir

Yngvi Gunnlaugsson ráðinn yfirþjálfari

Körfubolti | 06.04.2016
Yngvi Páll Gunnlaugsson og Ingólfur Þorleifsson formaður á pallinum hjá þeim síðarnefnda á Suðureyri við undirskrift samningsins.
Yngvi Páll Gunnlaugsson og Ingólfur Þorleifsson formaður á pallinum hjá þeim síðarnefnda á Suðureyri við undirskrift samningsins.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra (KFÍ) hefur ráðið Yngva Pál Gunnlaugsson til starfa sem yfirþjálfara deildarinnar. Yngvi Páll mun þjálfa meistaraflokk karla og hafa yfirumsjón með þjálfun yngri flokka deildarinnar. Hann tekur formlega til starfa 1. ágúst næstkomandi en mun sinna verkefnum fyrir körfuknattleiksdeildina eftir samkomulagi fram að því.

Yngvi Páll er fæddur árið 1978 og hefur víðtæka reynslu af þjálfun í öllum aldursflokkum beggja kynja. Hann kemur úr röðum KR þar sem hann hefur þjálfað með eftirtektarverðum árangri undanfarin fimm ár. Hann fór til KR frá Val en þar stýrði hann bæði karla- og kvennaliði félagsins upp um deild á 100 ára afmæli félagsins árið 2011. Einnig þjálfaði hann um árabil hjá Haukum þar sem hann á að baki 20 Íslands- og bikarmeistaratitla í yngri flokkum auk þess að gera kvennalið félagsins að Íslandsmeisturum árið 2009.

Yngvi er að ljúka kennaranámi en er menntaður húsamálari. Hann og kona hans, Guðrún Helga Guðmundsdóttir þroskaþjálfi, eiga þrjú börn. Yngvi er ekki ókunnugur Vestfjörðum því hann ólst að hluta til upp á Tálknafirði.

Aðspurður segir Yngvi að honum hafi strax litist vel á það sem stjórn KKD Vestra hafði fram að færa. „Við fjölskyldan ákváðum því að skoða það að breyta til og flytjast búferlum. Allt ferlið var einstaklega vel unnið og fagmennskan í fyrirrúmi af hálfu Vestra.“

Það sem framundan er leggst því vel í hann. „Það er mikil tilhlökkun af minni hálfu að flytja á Ísafjörð og taka þátt í þessu spennandi verkefni sem liggur fyrir, þ. e. að vera fyrsti yfir- og meistaraflokksþjálfarinn undir merkjum Vestra. Að því sögðu, þá stendur körfuboltinn á ákveðnum tímamótum fyrir vestan, en mönnum hefur tekist vel upp að sameina svæðið undir einn hatt og þannig hefur náðst góður fjöldi í yngri flokkunum og samkennd,“ segir Yngvi og vísar þar í að fjöldi iðkenda kemur frá byggðarkjörnunum í kringum Ísafjörð auk samstarfsins sem komið var á við Héraðssamband Strandamanna í vetur. „Mínar áherslur sem yfirþjálfari verða fyrst og fremst að móta faglegt starf innan körfuknattleiksdeildarinnar og leggja frekari grunn að metnaðarfullu og jákvæðu starfi,“ bætir Yngvi við.

Hvað meistaraflokk varðar er forgansröðin skýr hjá hinum nýja þjálfara. „Fyrst mun ég einbeita mér að þeim leikmönnum sem fyrir eru en auðvitað mun ég skoða það hvort það séu einhverjir á lausu sem geta styrkt liðið.“ Spurður nánar út í meistaraflokkinn fer ekki á milli mála að Yngva líst vel á verkefnið. „Ég hef trú á því að það búi mun meira í meistaraflokknum en hann sýndi í vetur, en að sjálfsögðu hafði 4+1 reglan eitthvað með það að segja. Hvort breytingar verði samþykktar á næsta formannafundi er ómögulegt að segja til um að svo stöddu en slíkar breytingar væru okkur í hag.“

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra lýsir yfir mikilli ánægju með ráðningu Yngva og hlakkar til samstarfsins við hann í framtíðinni.

Deila