Fréttir

Gullmót KR - uppgjör

Sund | 17.02.2015

Sundfélagið Vestri gerði sér ferð til höfuðborgarinnar á Gullmót KR á síðastliðinni helgi. Um er að ræða stórt og fjölmennt mót þar sem alls voru 440 keppendur skráðir til leiks frá 22 félögum. Mótshaldarar lögðu mikið uppúr umgjörð mótsins sem var öll hin glæsilegasta. Keppendum var boðið uppá gistingu og fæði á KR hótelinu sem var í Laugarlækjarskóla við Laugardalslaug þar sem keppnin fór fram. Það skapast ávallt mikil stemning meðal keppenda á Gullmótum KR sem gæti verið að hluta vegna sérstakra verðlauna sem eru veitt fyrir sigurvegara hvers riðils í hverju sundi ásamt því að allir sem að klára sín sund á sléttri sekúndu, svokölluðum "00" tíma, fá sérstaka viðurkenningu. Á Gullmótinu er einnig haldin stór útsláttarkeppni í 50m skriðsundi sem nefnist KR Super Challenge og þar eru veitt peningaverðlaun fyrir fyrstu tvö sætin bæði í karla og kvennaflokkum ásamt verðlaunapeningum fyrir alla aldursflokka. Í ár voru um 300 sundmenn skráðir í undanrásir fyrir KR Super Challenge.

Frá Vestra fóru 14 sundmenn en því miður urðu tveir að forfallast vegna veikinda. Þessir ágætu 14 sundmenn voru skráðir í 71 keppnisgrein á mótinu og stóðu þeir sig allir með príði. Einungis lentum við í 4 ógildingum sem verður að segjast að sé vel sloppið þar sem að hluti sundmanna var að synda í 50m laug í fyrsta skipti og voru sundmenn Vestra að prófa nýja grein í þessari stærð af laug í 26 skipti af þeim 71 sem þeir kepptu. Því voru aðeins um 45 tímar skráðir frá Vestra í mótskrá þegar að mótið hófst. Að mótinu lokinu höfðu þeir tímar hinsvegar verið bættir í heildina um heilar 137,5 sekúndur.
Þessum bætingum var tekið fagnandi og náðu sundmenn Vestra 13 lágmörkum á mót innalands á árinu, þar af 5 lágmörkum á Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ), 5 lágmörkum á Unglingameistaramót Íslands (UMÍ) og þremur lágmörkum á Íslandsmeistamót í 50 metra laug (ÍM50) sem haldið verður í apríl næstkomandi.


Vestri lagði af stað á föstudeginum keyrandi klukkan 7 um morguninn öllum til mismikillar ánægju og átti þá um 6 tíma ferðalag fyrir höndum áður en upphitun hófst fyrir fyrsta mótshluta í Laugardalslaug. Í fyrsta mótshluta voru margir sundmenn Vestra pínu smeikir við stærð laugarinnar en hún rúmar Sundhöll Ísafjarðar 10 sinnum. Þrátt fyrir þetta hrundu persónuleg met eins og flugur á föstudeginum og voru það sáttir Vestrapúkar sem lögðust á koddan á KR hótelinu á föstudagskvöldinu. 

Laugardagurinn hófst einnig snemma en flestir voru mættir í morgunmat um klukkan 7. Upphitun fyrir fyrsta mótshluta á laugardeginum hófst svo klukkan 8 og voru það 13 ára og eldri sem voru á keppendalistanum. Mótshlutinn gekk hratt og örugglega fyrir sig og stóðu eldri sundmenn Vestra sig mjög vel. Eftir hádegismat var röðin komin að 12 ára og yngri að hita upp fyrir 3. mótshluta. Þar voru margar og miklar bætingar og var telpnaboðsundsveit Vestra skráð til leiks í síðustu grein hlutans sem var 4 x 50m fjórsunds boðsund. Þetta þótti telpunum ákaflega skemmtileg upplifun og var mikil samheldni í sveitinni.
Í 4. mótshluta var röðin aftur komin að eldri hópnum sem að hafði staðið vaktina á bakkanum sem hvatningarlið yngri krakkana. Enn var fiðringur í hópnum vegna stærðar laugarinnar en það virtist draga úr honum eftir upphitun. Eftir 4. mótshluta héldu Vestrapúkarnir aftur á KR hótelið þar sem kvöldmaturinn var kláraður og allir gerðu sig klára fyrir að fara á KR Super Challenge.
Þegar að á KR Super Challenge var komið komu Vestarpúkarnir sér vel fyrir í stúkunni og fylgdust með ljósasýningu á meðan þeir sem komust í gegnum undanrásir hituðu upp, enn þeirra á meðal var Guðný Birna Sigurðardóttir sem var skráð til keppni í flokki 15 - 17 ára kvenna. Spennan í hópnum magnaðist á meðan beðið var eftir úrslitasundinu. Loks kom að því og það var Guðný sem kom, sá og sigraði. Hún var skráð til leiks með besta tímann í sínum aldursflokk eftir að hafa átt mjög gott sund í undanrásum daginn áður. Þrátt fyrir að hafa synt tvær krefjandi greinar fyrr um daginn bætti Guðný tímann sinn á ný um 67 sekúndubrot og kom í mark í úrslitasundinu á tímanum 28.42, en sá tími hefði skilað henni 3ja sætinu í flokki 18 ára og eldri. 
Að keppni lokinn á laugardeginum var boðið uppá kvöld snarl á KR hótelinu áður en að keppendur héldu í háttinn.
Á sunnudagsmorgninum fóru yngri Vestrapúkarnir í upphitun fyrir þeirra síðasta mótshluta þar sem að allir skiluðu sínu og voru þreittir og sáttir eftir afrek dagsins. Liðið bar höfuðið hátt þegar að það lauk keppni á Gullmóti KR og yfirgaf Laugardalinn sátt við sína frammistöðu.
Heilt yfir gekk mótið mjög vel þrátt fyrir að einhver magahveisa haf gengið um hópinn, hiti og hausverkur, tátognanir/bólgur og smávægilegt gat á hausinn hafi skotið upp kollinum. Við ákváðum að skrá ekki sundmenn frá Vestra í 6. og síðasta mótshlutan en þá hefði ferðin heim ekki hafist fyrr en um 18:00 á sunnudeginum. Í staðinn var ákveðið að rúlla aftur heim í hádeginu á sunnudeginum og komum við í bæinn um rétt uppúr klukkan 20:00.


Þjálfari og fararstjórar þakka kærlega fyrir sig og vona að þessi ferð hafi verið jafn ánægjuleg og lærdómsrík fyrir krakkana eins og hún var fyrir þá.

Deila