Fréttir

Vestri vann hvatningarbikarinn 2007-2008.

Sund | 25.11.2008 Þetta er ekki bikar fyrir hvatningu heldur fyrir það lið sem mest hefur komið á óvart, stækkað og eflst á s.l sundári.

Það kom m.a fram í máli Harðar Oddfríðarsonar, formanns sundsambands Íslands, að Vestri hefði verið og væri á mikilli siglingu svo eftir væri tekið. Allt starfið hefði greinilega eflst og Vestri verið mjög áberandi á mótum, bæði fyrir skemmtilega og líflega framkomu sem og árangur sundmanna.

Þetta er ekki síður viðurkenning til stjórnar Vestra, þjálfara, foreldra og allra sem vinna að starfinu og koma að með einum eða öðrum hætti.

Ég óska öllum Vestrapúkum innilega til hamingju með þessa miklu viðurkenningu sem sýnir að við erum að gera góða hluti og hvetur okkur til að gera enn betur.

Hérna kemur þetta orðrétt frá SSÍ.

,,Hvatningarbikar SSÍ

Hvatningarbikar SSÍ er veittur því félagi sem mest hefur komið á óvart á liðnu sundári. Leggja skal til grundvallar valinu, uppbyggingu áhuga, eljusemi og þátttöku félags og aðstandenda félagsins á sundatburðum og mótum.

Miðað skal við að félag sem hlýtur Hvatningarbikarinn hafi á liðnu sundári náð verulegum árangri í innri uppbyggingu og fjölgað sundfólki í landinu.



Hvatningarbikar SSÍ árið 2008 er veittur Sundfélaginu Vestra á Ísafirði.

Mikil fjölgun hefur orðið á iðkendum hjá Vestra og stærð hópsins og árangur á sundmótum hefur vakið mikla athygli, sérstaklega þegar tekið er með í reikninginn stærð sveitarfélagsins og aðstæður til sundiðkunar.

Sundfélagið Vestri hefur verið mjög duglegt að sækja mót og æfingabúðir um allt land og mættu mörg félög taka sér þennan kraft til fyrirmyndar.´´
Deila