Fréttir

Ferðasagan

Blak | 15.04.2009

Hér að neðan er ferðasaga ótrúlega duglegra blakkrakka sem fóru í ævintýraferð til Ólafsvíkur:
Föstudagur: 

Lagt var af stað um klukkan 13:30 frá íþróttahúsinu Torfnesi.  Bílstjóri var Friðfinnur frá Þingeyri og var setið í öllum sætum í 25 manna rútunni. Stoppað var einu sinni við eyðibýli í Djúpinu til að pissa - og kom þá í ljós að stelpur nú til dags kunna ekki að pissa úti :-)  En eftir smá vangaveltur og nokkrar tilraunir tókst þetta hjá flestum. Stoppað var í sjoppunum á Hólmavík og í Búðardal. Ferðin var löng, milli 8 og 9 klukkustundir, en bíómyndir styttu okkur stundir á leiðinni og var Ívar Tumi tæknimaður ferðarinnar. Þegar við komum til Ólafsvíkur rétt fyrir kl. 22 voru það fegnir krakkar sem fengu að leika sér í smástund á skólalóðinni og spila fótbolta við heimamenn á sparkvellinum.  Allir fengu síðan skúffuköku (sem Þorgerður hafði verið fram á nótt að baka) og mjólkurglas fyrir svefninn. Við komum okkur fyrir í tveimur skólastofum, strákarnir í annarri og stelpurnar hinni. Eins og gengur í svona ferðum tók smá tíma að róa sig niður, en allir voru þó sofnaðir á kristilegum tíma.

 

Laugardagur:

Við þurftum að vakna snemma morguninn eftir og fengum okkur staðgóðan morgunverð. Samæfing byrjaði svo klukkan 8:30, en þá hittum við krakkana frá Ólafsvík og þjálfararnir þeirra stjórnuðu tækniæfingum. Hóparnir blönduðust vel saman og nokkrir eignuðust strax kunningja frá Ólafsvík. Milli klukkan 10 og 12:30 var frjáls tími og hádegisverður, sem var hakk og spagettí - mjög vinsælt. Við fengum full afnot af skólaeldhúsinu, sem var ansi þægilegt. Mótið byrjaði síðan klukkan 12:30 og voru liðin okkar svona (ekki í neinni sérstakri röð):

 

Skellur 1: Birkir, Bjarni Pétur, Auður Líf og Ívar Tumi.  Þau spiluðu 3. stig og stóðu sig eins og hetjur. Þetta eru krakkar sem hafa æft í tvö ár og það er ótrúlegt að sjá hvað svona ungir krakkar hafa náð góðum tökum á tækninni.

 

Skellur 2: Alexander, Regína, Daði og Lena. Þau spiluðu líka 3. stig og unnu allar sínar hrinur. Þetta eru krakkar sem eru að fara á Íslandsmótið til Akureyrar um helgina og eiga örugglega eftir að standa sig vel. Þau eru í rauninni alveg tilbúin að spila 4. stig sem er nánast venjulegt blak.

 

Skellur 3: Dóra, Telma, Sandra, Sigþór, Vigri.  Þau spiluðu 2. stig og fóru létt með það.  Þetta eru krakkar sem verða alveg klár í 3.-4. stig á Íslandsmótinu næsta vetur.

 

Skellur 4: Kjartan, Bensi, Eva, Viktoría og Kalli. Þau spiluðu líka 2. stig og stóðu sig mjög vel. Krakkarnir í þessu liði hafa tekið stórstígum framförum í vetur og þessi eldri verða klár í Íslandsmótið á næsta ári.

 

Skellur 5: Ólöf, Birta, Ingibjörg og Þórunn.  Í þessu liði voru tvær stelpur úr 4. bekk sem eru nýbyrjaðar að æfa blak og stelpur úr 1. og 2. bekk frá Suðureyri. Þau spiluðu 1. stig og það var gaman að fylgjast með því hvað þær voru duglegar og lögðu sig mikið fram.

 

Í lokin var liðum blandað saman.

 

Eftir mótið fórum við í sund og þar voru líka krakkarnir frá Ólafsvík. Mikið fjör var í lauginni og ekki að sjá að krakkarnir væru neitt þreyttir eftir daginn.  Eftir sundið var leyfð sjoppuferð, þar sem krakkarnir máttu kaupa sér smá nammi.

 

Klukkan 18 byrjaði kvöldvaka sem haldin var í skólanum hjá okkur. Ólsararnir héldu hana og fengu þrjár unglingsstúlkur til að skipuleggja hana. Boðið var upp á pizzur og gos og síðan var farið í allskonar leikrit, og sýnd voru skemmtiatriði. Skells-krakkarnir fluttu lagið: "Smass yfir netið", á eftirminnilegan hátt. Eftir að krakkarnir frá Ólafsvík voru farnir héldum við áfram leikjum fram eftir kvöldi.

 

Sunnudagur:

Morguninn eftir máttu krakkarnir sofa aðeins frameftir, en samt voru langflestir vaknaðir klukkan 8. Við lögðum af stað á rútunni klukkan 10 og vorum þá í stöðugu sambandi við Vegagerðina og fleiri vegna þess að búið var að opna Dynjandisheiði og verið að vinna í Hrafnseyrarheiði. Ákveðið var að gefa þessu sjéns og við skelltum okkur í sund á Stykkishólmi.  Á meðan talaði Friðfinnur við bróður sinn sem sagðist geta ferjað okkur yfir Hrafnseyrarheiði á snjóbíl ef ekki yrði opnað. Hann var búinn að vera á ferðinni á heiðinni alla helgina. Þá var ákveðið að láta slag standa og taka Baldur yfir Breiðafjörðinn í þeirri von að Hrafnseyrarheiðin yrði opnuð, en með plan B að taka snjóbílinn yfir. Við gátum þá fengið okkur að borða í rólegheitum á Stykkishólmi og tekið einn fótboltaleik á sparkvellinum. Síðan skelltum við okkur í Baldur, sem öllum fannst mjög spennandi. Svolítill veltingur var á leiðinni og sumum var bumbult, en þetta slapp allt. Margir krakkanna voru mjög spennt fyrir siglingunni og eyddu mestum tímanum úti í næðingnum með glampa í augum. Í ljós kom að hætt hafði verið við að moka Hrafnseyrarheiðina þar sem menn voru hræddir um að koma af stað snjóflóði við að ryðja veginn. Dynjandisheiðin var vel fær, og gekk vel að keyra hana. Rútan fór upp fyrstu brekkurnar á Hrafnseyrarheiðinni og síðan labbaði strollan af stað á móti snjóbílnum. Farangurinn var að mestu skilinn eftir. Blíðskaparveður var á heiðinni og kvöldgangan bara hressandi. Snjóbíllin kom síðan á móti okkur og flutti okkur yfir í þremur hollum. Bíllinn fór gamla vetrarveginn á leið þar sem ekki var snjóflóðahætta. Flestir voru að koma í fyrsta skipti í snjóbíl og kannski verður þetta eina skiptið fyrir mörg krakkanna, þar sem þessi fararmáti sem var svo algengur á heiðunum í gamla daga er að detta upp fyrir.  Það voru mjög þreyttir en vonandi sælir krakkar sem komu heim til sín á sunnudagskvöldi - sem betur fer var ekki skóli daginn eftir! 


 

Deila