Fréttir

Síðasti aðalfundur Blakfélasins Skells – fyrsti aðalfundur blakdeildar Vestra

Blak | 02.03.2016

Laugardaginn 27 febrúar 2016 kl15:00, hélt Blakfélagið Skellur sinn síðasta aðalfund.  Fundurinn var haldinn í Háskólasetri Vestfjarða og var mæting þokkaleg, en frábært útivistarveður kom örugglega í veg fyrir betri mætingu.  Í upphafi aðalfundar var dagskrá hefðbundin, formaður fór yfir starfsemi félagsins frá árinu áður og má þá skýrslu nú finna í heild sinni undir félagið og skýrslur.  Stærstu tíðindi ársins 2015 eru nokkur, Kvennalið meistaraflokks vann 2. deildina á Íslandsmótinu í blaki taplausar, félagið er komið með tvo landsliðsmann í U17, hafin var gerð strandblakvallar í Skutulsfirði með samningi við Ísafjarðarbæ og ráðinn var erlendur þjálfari til félagsins.

Í skýrslu gjaldkera kom fram að fjárhagsleg staða félagsins er ásættanleg en rekstrarniðurstaða síðasta árs var lítilsháttar hagnaður.  Félagið er engu að síður skuldlaust og á enn einhverja sjóði. Ljóst er að sívaxandi ferðakostnaður hefur veruleg áhrif á fjárhaginn, einnig mun þjálfun verða dýrari með ráðningu þjálfara í fullt starf. Telja má fullvíst að verulega þurfi að efla tekjustofna félagsins á næstu árum og er mjög mikilvægt að ná styrktarsamningum við fyrirtæki til að auðvelda fjármögnun á keppnisferðum.

Kemur þá að liðnum lagabreytingar.

Forsagan að því er að laugardaginn 16 janúar síðastliðinn tók Blakfélagið Skellur þátt í stofnun fjölgreinafélagsins Vestra, ásamt fulltrúum BÍ, KFÍ og sundfélagsins Vestra.  Undirskriftin var gerð með tilvísun í umboð frá aðalstjórn Skells, sem og samþykkt félagsfundar Skells frá 18 nóvember síðastliðinn.  Borin var upp tillaga þess efnis að aðalfundur Skells staðfesti samþykkt félagsfundar frá 18 nóvember, um þáttöku í Vestra.  Tillagan var samþykkt í leynilegri kosningu með 71% atkvæða, en þar sem tillagan var janfgildi lagabreitinga þurfti hún að hljóta 2/3 atkvæða minnst.

Og þarmeð var breyttist aðalfundur Blakfélasins Skells í aðalfund blakdeildar Vestra !

Næst á dagskrá var að bera reglugerð blakdeildar upp til umræðu og atkvæða.  Eftir stuttar umræður var reglugerðin samþykkt með þorra atkvæða.  Samkvæmt reglugerð blakdeildar, er þriggja manna meistaraflokksráð og þriggja manna krakkablaksráð.  Hvort ráð hefur þar að auki einn varamann.  Saman mynda þessi tvö ráð stjórn deildarinnar, auk formanns deildarinnar sem kosinn er sérstaklega.  Niðurstöður kosninga voru svo sem hér segir:

Formaður blakdeildar Vestra var kjörinn Harpa Grímsdóttir.

Í meistaraflokksráð voru eftirtaldir kjörnir:  Sólveig Pálsdóttir oddviti, Magnús Bjarnason til tveggja ára, Klaudia Szabłowska til eins árs og Jón Kristinn Helgason varamaður til eins árs.

Í yngriflokkaráð voru eftirtaldir kjörnir:  Guðrún Karlsdóttir oddviti, Kristinn Mar Einarsson til tveggja ára, Anna Katrín Bjarnadóttir til eins árs og Ragnhildur Ágústdóttir varamaður til eins árs.

Var þá komið að liðnum önnur mál.

Nýji þjálfarinn okkar bar á góma.  Hann er sannarlega reynslubolti úr atvinnumennskunni, en virðist líka ágætlega við að starfa hjá litla klúbbnum okkar.

Og svo bar á góma mál sem varðar fjáraflanir fyrir deildina.  Til boða stendur að að gera samning við Orkuna, sem fælist í því að félagsmenn fengju viðskiptalykil hjá Orkunni og deildin fengi þá tekjur í hlutfalli við viðskipti félagsmanna.  Þetta mál verður skoðað betur á næstu vikum.

Ekki voru fleiri mál borin upp og þakka því undirritaður fyrir fundinn og samfylgdina síðustu 8 ár.

Fundi slitið kl 17:06

Deila