Fréttir

Flaggskipið lokaði á Grundfirðinga í seinni hálfleik

Körfubolti | 10.03.2019
B-lið Vestra frá því fyrr í vetur.
B-lið Vestra frá því fyrr í vetur.

Flaggskipið, B-lið meistaraflokks karla, mætti liði Grundarfjarðar í 3. deild karla í gær í Bolungarvík. Fyrri leik liðana í vetur endaði með miklum úthaldssigri Flaggskipsins eftir tvær framlengingar.

Gestirnir byrjuðu talsvert betur og komust í 13-4 á fyrstu mínútunum með góðri hittni fyrir utan þriggja stiga línunnar. Gunnlaugur Gunnlaugsson og Guðmundur Auðun Gunnarsson komu þó Vestra aftur inn í leikinn og staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-21.

Eftir að gestirnir höfðu sett fjórar þriggjastiga körfur í fyrsta leikhluta þá voru skilaboðin skýr fyrir þann næsta. Mæta skyttunum þeirra fyrir utan. Það fór þó inn um annað eyrað og út um hitt því Grundfirðingar jörðuðu 5 þriggja stiga körfum í leikhlutanum auk nokkura langskota og komust mest 9 stigum, 32-41, yfir í leikhlutanum. Vestramenn náðu þó aðeins að laga stöðuna fyrir lok hans og staðan í hálfleik var 37-43.

Birgir Örn Birgisson, þjálfari Flaggskipsins, sá til þess í hálfleik að skipanir sínar færu ekki framhjá neinum Musterinu í Bolungarvíkinni enda var það allt annað og einbeittara lið Vestra sem mætti í seinni hálfleik. Daníel Wale Adeleye, sem hafði fylgt stigakóngi 1. deildarinnar eins og skugginn í leik A-liðsins deginum á undan, var eins og þröngur frakki á leikstjórnanda Grundfirðinga í seinni hálfleik og tók hann algjörlega úr umferð, en sagan segir að Daníel hafi enn verið að pressa hann þegar hann reyndi að komast í liðsrútuna að leik loknum. Leikur gestana riðlaðist allur í kjölfarið og uppskáru Vestramenn fjölmarga stolna bolta og auðveld hraðaupphlaup í kjölfarið en þriðji leikhluti endaði 24-11 fyrir heimamenn og staðan fyrir loka leikhlutan 61-54 fyrir Vestra.

Í fjórða leikhluta fóru gestirnir að koma boltanum meira undir körfuna á bræðurna Guðna og Sæþór Sumarliðasyni og uppskáru þeir fjöldan af villum á varnarmenn Vestra í kjölfarið. Það dugði þó skammt og uppskar Flaggskipið að lokum öruggan 81-67 sigur.

Hjá Vestra var Gunnlaugur Gunnlaugsson með stórleik en hann skoraði 32 stig. Guðmundur Auðun Gunnarsson kom næstur með 19 stig.

Hjá Grundfirðingum var Guðni Sumarliðason stigahæstur með 29 stig en bróðir hans Sæþór Sumarliðason kom næstur með 18 stig.

Vestri

 • Gunnlaugur Gunnlaugsson - 32 stig, 2 þristar, 8/9 í vítum, 1 villa
 • Guðmundur Auðun Gunnarsson - 19 stig, 2 þristar, 3/4 vítum, 1 villa
 • Birgir Örn Birgisson - 7 stig, 1 þristur, 4 villur
 • Daníel Wale Adeleye - 7 stig, 1/4 vítum
 • Stígur Berg Sophusson - 7 stig, 1/1 vítum
 • Aleksandar Tasev - 3 stig, 1 þristur
 • Magnús Þór Heimisson - 2 stig, 2/2 víti, 3 villur
 • Sturla Stígsson - 2 stig, 2 villur
 • Stefán Þór Hafsteinsson - 2 stig, 1 villa


Grundarfjörður

 • Guðni Sumarliðason - 29 stig, 5 þristar, 6/8 víti, 2 villur
 • Sæþór Sumarliðason - 18 stig, 1 þristur, 3/5 víti, 2 villur
 • Kristinn Guðmundsson - 6 stig, 1 þristur, 1/2 víti, 2 villur
 • Aðalsteinn Jósepsson - 6 stig, 2 þristar, 0/2 víti, 2 villur
 • Sigurður Valgarðsson - 6 stig, 1 þristur, 1/2 víti, 1 villa
 • Daníel Husgaard - 2 stig, 2 villur

 

Deila