Fréttir

Magnús Breki til liðs við Vestra

Körfubolti | 07.11.2016
Magnús Breki og Ingólfur Þorleifsson formaður Kkd Vestra.
Magnús Breki og Ingólfur Þorleifsson formaður Kkd Vestra.

Vestri og Þór Þorlákshöfn hafa komist að samkomulagi um að unglingalandsliðsmaðurinn Magnús Breki Þórðarson gangi tl liðs við Vestra á lánssamningi. Magnús Breki er fluttur vestur á Ísafjörð og mun hann stunda nám við Menntaskólann á Ísafirði jafnframt því að leika körfubolta með Vestra. Hann hefur leikið með Þór upp alla yngri flokka og nú síðast með meistaraflokki félagsins í úrvalsdeild. Hjá Vestra hittir hann fyrir gamla félaga því hann lék með þeim Nökkva Harðarsyni og Hinriki Guðbjartssyni í  sameiginlegu unglingaflokksliði Þórs og Grindavíkur.

Fyrsta verkefni Magnúsar Breka með Vestra er bikarleikurinn gegn Haukum sem fram fer í kvöld, mánudaginn 7. október hér heima.

Magnús Breki er efnilegur bakvörður, fæddur árið 1998 og mun án vafa styrkja hópinn hjá Vestra . Hann varð Norðurlandameistari með U-18 ára landsliði Íslands í júní  og lék einnig með liðinu á EM í júlí og ágúst. Magnús Breki hefur komið við sögu í flestum leikjum Þórs í úrvalsdeildinni það sem af er tímabilsins og sýnt góða takta.

Stjórn Vestra býður Magnús Breka hjartanlega velkominn í hópinn og hlakka til samstarfsins við hann.

Deila