Um helgina kepptu stúlkurnar í 7. Flokki á síðasta móti vetrarins í C-riðli Íslansmótsins. Stelpurnar fengu þann heiður að vera síðasta liðið til að spila undir merkjum KFÍ en á næsta keppnistímabili verður leikið undir merkjum Vestra. Keppt var í Rimaskóla í Grafarvogi og áttu stelpunar tvo leiki á laugardegi og tvo á sunnudegi.
Fyrsti leikur var á gegn gestgjöfunum í Fjölni. KFÍ stúlkur hófu leikinn af miklum krafti með frábærri vörn og mjög flottri sókn og var staðan eftir fyrsta leikhluta 14-0 fyrir KFÍ. Sömu sögu var að segja um annan leikhluta og í hálfleik var staðan 19-0 KFÍ stúlkum í vil. Í þriðja leikhluta sofnuðu stelpurnar aðeins á verðinum þegar heimastúlkur náðu góðu áhlaupi en þar sem munirnn var þegar orðinn mikill kom það ekki að sök og var staðan eftir þriðja leikhluta 27-10 fyrir KFÍ. Lítið gerðist í fjórða leikhluta og endaði leikurin með öruggum sigri KFÍ 32-12.
Annar leikurinn gegn Grindavík var jafn og spennandi að mestu leyti en alltaf voru KFÍ stúlkur skrefi á undan. Leikurinn byrjaði með miklum látum og skoraði KFÍ sókn eftir sókn og komst í 10-0 en þá virtist koma lok á körfuna því þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum skoruðu KFÍ stúlkur aðeins 1 stig á móti 6 stigum frá Grindavík. Næstu tvo leikhluta gekk mjög erfiðlega að setja boltann í körfuna en KFÍ stúlkur héldu sér inn í leiknum með frábæri vörn. Staðan fyrir síðasta leikhluta var 13-12 fyrir KFÍ. Grindavik komst yfir í fyrsta sin í byrjun fjórða leikhluta en við það hrökk leikur KFÍ í gang með þremur körfum í röð. Auk þess söng þriggja stiga flautukarfa í netinu sem var samt dæmd af. Einhverjir áhorfendur voru þó á því að karfan hafi verið fullkomnlega lögleg en ekki þýðir að deila ivð dómarann og því var lokastaðan 19-14 fyrir KFÍ. Með þessum sigri voru stelpurnar komnar í mjög góða stöðu fyrir seinni daginn.
Þriðju leikurin var gegn Njarðvík á sunnudagsmorgni. KFÍ stúlkur byrjuðu af miklum krafti sem fyrr og eftir frábæran fyrsta leikhluta var staðan 12-0 KFÍ í vil. Annar leikhluti einkenndist af mikilli baráttu en jafnframt flottum körfubolta þar sem gott spil var í gangi hjá stelpunum. Staðan í hálfleik 18-6. Í þriðja leikhluta gáfu KFÍ stúlkur í og náðu að auka enn á forskotið og endaði leikhlutinn í stöðunni 25-8. Í fjórða og síðasta leikhlutanum áttu Njarðvíkurstúlkur gott áhlaup en það kom of seint og því var þriðji sigur KFÍ stúlkna staðreynd og lokatölurnar 33-19.
Fjórði og síðasti leikurin var á gegn liði Breiðabliks. Fljótlega mátti sjá að KFÍ stúlkur höfðu mikla yfirburði enda leiddu þær allan leikinn. Leikurinn var frekar óspennandi og sigurinn auðveldur 29-12.
Með þessum 4 sigrum tryggðu KFÍ stúlkur sér sigur í riðlinum og sæti í B-riðli á næsta keppnistímabili. Helgin var í alla staði flott og voru stelpurnar til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Þessi hópur hefur tekið miklum framförum í vetur undir stjórn Nökkva Harðarsonar þjálfara sem hefur stýrt liðinu af fagmennsku í vetur bæði á æfingum og í keppni. Það er ljóst að framtíðin er björt í kvennakörfunni á Ísafirði ef þessar efnilegu stelpur halda áfram að æfa og bæta sig og ljóst að þær geta náð mjög langt í íþróttinni.
Deila