Fréttir

Pétur Már stýrir Vestra áfram

Körfubolti | 04.04.2020
Pétur Már Sigurðsson mun áfram stýra Vestra. Ljósmynd: Anna Ingimars.
Pétur Már Sigurðsson mun áfram stýra Vestra. Ljósmynd: Anna Ingimars.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra og Pétur Már Sigurðsson, þjálfari meistaraflokks karla, hafa ákveðið að Pétur muni stýra liðinu áfram á næsta leiktímabili. Þrátt fyrir óvissutíma framundan telur stjórn mikilvægt að bíða ekki með undirbúning næsta tímabils enda mikilvægt að tryggja sem mestan stöðugleika í starfsemi deildarinnar.

Pétur Már kom til liðs við Vestra síðastliðið sumar og hefur samhliða þjálfun meistarflokks einnig þjálfað hjá yngri flokkum félagsins. Árangur meistaraflokks var samkvæmt áætlun þegar mótið var blásið af en liðið hafði tryggt sér sæti í úrslitakeppninni og var greinilegur stígandi í leik þess en liðið vann sjö af síðustu átta leikjum sínum. Þessi stígandi hefði án vafa getað tryggt Vestra sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Sá draumur er úti í bili en ekkert annað að gera en að hefja undirbúning komandi tímabils þótt aðstæður séu krefjandi og erfiðar.

Stjórn þakkar Pétri Má góð störf í vetur og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.

Deila