Fréttir

Harðverjar og Vestrapúkar – verðugir andstæðingar

Vestri | 04.06.2020

Sú frétt flýgur nú fjöllum hærra að knattspyrnulið Vestra og Harðar á Ísafirði muni mætast í meistaraflokki í Bikarkeppni KSÍ nú á helginni. Slíkan stórviðburð hefur ekki borið við í bæjarlífinu í margar áratugi. Sennilega ekki frá árinu 1979.

Í marga áratugi var hápunktur fótboltaársins á Ísafirði síðasti leikur Harðar og Vestra í meistaraflokki. Oft var það síðasti leikur sumarsins og um leið úrslitaleikur í Vestfjarðamótinu. Bæði félögin söfnuðu saman sínum bestu leikmönnum. Það var mikið í húfi. Sigurliðið hélt titlinum og birkarnum alveg fram á næsta sumar. Besta knattspyrnufélag Ísafjarðar og Vestfjarða. Tapliðið mátti sleikja sárin allan veturinn og fram á næsta sumar.

Knattspyrnufélögin Hörður og Vestri teygja sögu sína allt aftur til ársins 1919, þegar Harðverjar stofnuðu sitt félag. Fyrstu árin kepptu þeir við enn eldra félag sem hét fyrstu árin Fótboltafélag Ísfirðinga og síðar Knattspyrnufélag Ísafjarðar (alveg eins og KR í Reykjavík). Félögin léku nokkra leiki eftir 1921 og virðist svo sem ungu mennirnir í Herði hafi unnið alla leiki félaganna, allt þar til gamla félagið gafst upp eftir 1922. Þegar Harðverjar höfðu ráðið vellinum einir í fjögur ár var Ksf. Vestri stofnaður 1926.

Fyrsti leikur Harðar og Vestra fór fram vorið 1927. Vestramenn segjast hafa unnið í þeim leik, en það er óstaðfest. Hitt er sannað að Harðverjar fóru með sigur af hólmi í aðalleik liðanna fyrstu þrjú árin 1927-1929. Þá var keppt um „Völlinn“, verðlaunagrip sem Einar Oddur Kristjánsson gullsmiður hafði gert og keppt var um í mörg ár. Það var marmaraplata með ígreiptum fótboltavelli og á vellinum stóðu 22 litlar styttur af knattspyrnumönnum.

Aðalleikir liðanna voru tveir á hverju sumri. Fyrri leikurinn var háður kringum 17. júní, áður en sjómenn fóru norður á síldina. Seinni leikurinn var oft haldinn í tengslum við Vestfjarðamót eftir mitt sumar. Sá leikur gat dregist fram á haustið, því liðin vildu bíða eftir að traustir leikmenn úr sjómannastétt kæmu heim af síldarvertíðinni. Seinna vildu félögin ekki bíða of lengi fram eftir haustinu, því þá misstu þau unga og upprendandi leikmenn norður í menntaskóla eða suður í Háskólann. Var þetta stundum mikið valdatafl, því bæði lið reiknuðu út styrkleika og veikleika andstæðingsins og vildu stundum flýta leiknum eða þvert á móti seinka leiknum fram í fyrstu snjóa.

Á leikvellinum gáfu menn allt sem þeir áttu. Félagastoltið var undir. Og áhorfendur flykktust á völlinn, fyrst gamla malarvöllinn við Eyrargötu og síðar inn á Torfnesvöll. Allir púkar bæjarins mættu til að hvetja sitt lið og sama gerður stelpurnar, eiginkonur, unnustur og helstu skyldmenni leikmanna. Eldri og virðulegri Harðverjar og Vestramenn stilltu sér upp á hliðarlínunni, svo púkarnir urðu að troða sér á milli fóta þeirra, til að sjá leikinn. Enginn vildi missa af einvíginu mikla á milli Harðar og Vestra.

Það var hart barist, jafnvel svo hart, að menn báru ævilangar menjar á líkama og sál. Stundum lá við slagsmálum og oft urðu eftirmál og kærur eftir leiki. Þannig var dómarinn í leik liðanna árið 1928 rekinn úr vinnu, fyrir dónaskap gagnvart atvinnurekandanum á meðan á leiknum stóð. Oftast var þó gert út um leikinn á vellinum. Þar gat líka ýmislegt gengið á, svo sem þegar varnarmaður Vestra bjargaði á línu og steig svo fast á boltann að hann sprakk.

Hvernig var það svo, hvort liðið var betra, Vestri eða Hörður?  Fyrstu áratugina hafði Hörður oftast betur og átti blómaskeið bæði á fjórða og fimmta áratugnum. Vestri vann samt nokkrum sinnum, óvænt, til dæmis haustið 1931. Kannski skipti það máli að í fyrri leiknum á 17. júní sama ár var harkan slík að þrír Harðverjar lágu óvígir á vellinum og í haustleiknum fótbrotnaði einn liðsmaður Harðar. Eftir 1950 jöfnuðust metin á milli liðanna og síðar náði Vestri nokkrum yfirburðum þegar kom fram undir 1970. En leikirnir voru alltaf tvísýnir og aldrei hægt að bóka úrslitin fyrirfram. Síðustu leikir Ísafjarðarliðanna, sem ég hef heimildir um, fóru fram í tengslum við hátíðahöld 17. júní 1978 og 1979. Frá þeim tíma hafa Vestri og Hörður ekki háð opinberan knattspyrnuleik. Þar til nú.

Bæði lið munu örugglega leggja allt í sölurnar í bikarleiknum, því hér er mikið í húfi. Ísfirðingar munu trúlega ekki láta þetta tækifæri framhjá sér fara og fjölmenna á Völlinn. Hvort hógværir heldri menn eða siðprúðar kvenfélagskonur muni sleppa fram af sér beislinu í hita leiksins, líkt og hér áður fyrr, veit maður ekki. Það er allavega þess virði að missa ekki af því, ef það gerist!

Gleðilega hátíð, Vestra- og Harðarpúkar.

Sigurður Pétursson sagnfræðingur.

Deila