Fréttir

Lyftingadeild Vestra

Vestri | 29.09.2023

Stofnuð hefur verið lyftingadeild innan íþróttafélagsins Vestra. Undanfarin ár hefur verið vaxandi áhugi á Ólympískum lyftingum á starfssvæði Vestra og talsverður hópur sem stundar þá íþrótt reglulega. Um nokkurt skeið hefur verið rætt um að stofna lyftingadeild sem yrði aðili að Lyftingasambandi Íslands og hefði rétt til þátttöku í Íslandsmótum og öðrum viðurkenndum mótum innanlands og utan. Það hefur nú verið gert og er ánægjulegt að greina frá því að á Haustmóti Lyftingasambands Íslands sem fer fram núna um helgina á Akranesi er keppandi frá Vestra í fyrsta sinn á meðal þátttakenda, Guðrún Helga Sigurðardóttir.

Guðrún Helga hefur æft Ólympískar lyftingar frá haustinu 2021. Hún stundar fjarþjálfun og fær æfingar vikulega frá Sigurði Darra Rafnssyni þjálfara. Hún keppti á sínu fyrsta móti haustið 2022 og setti Íslandsmet í jafnhendingu í sínum aldurs- og þyngdarflokki á Íslandsmeistaramóti unglinga í maí 2023. Guðrún er í landsliðshópi í Ólympískum lyftingum og mun taka þátt í Norðurlandamóti ungmenna í Rovaniemi í Finnlandi í nóvember.

Deila