Mikilvægt er fyrir alla aðila sem hyggjast halda úti vefsíðum að eiga góð lén. Þegar íþróttafélagið Vestri var stofnað kom í ljós að lénið vestri.is var þegar í notkun og hafði verið um langt skeið.
Hjalti Karlsson, formaður félagsins, segir að eftirgrennslan hafi leitt í ljós að eigandi lénsins væri Hermann Vestri Guðmundsson, búsettur syðra en ættaður úr Álftafirði, nánar tiltekið frá Mýri. „Jörðin er fyrir löngu kominn í eyði en bærinn stóð á milli Hlíðar og Dvergasteins, spottakorn innan við Súðavík“, segir Hjalti og bætir við að Hermann Vestri eigi nokkurn frændgarð hér vestra, bæði í Bolungarvík og á Ísafirði. Hafa nokkrir þeirra getið sér gott orð á íþróttasviðinu, t.d. þeir bræður Jón og Örnólfur Oddsson.
Haft var samband við Hermann og rætt við hann um möguleika þess að hann eftirléti félaginu lénið vestri.is á góðum kjörum. Hjalti segir að Hermann Vestri hafi brugðist afar vel við þessari málaleitan. „Hermann er mikill sómamaður og tók okkur mjög vel. Hann gaf hinu nýja félagi lénið og sagði að ef það væri eitthvað sem fengi hann til að eftirláta þetta lén, þá væri það barna- og unglingastarf á Vestfjörðum“.
Hjalti segir að félagið sé afar þakklátt Hermanni Vestra fyrir þessa höfðinglegu gjöf því góð lén liggi ekki lausu og kosti yfirleitt talsverða peninga. Í framhaldinu fór Hjalti og hitt Hermann Vestra og færði honum veifu með merki félagsins. „Og að sjálfsögðu lét ég hann fá vestfirskan harðfisk frá Boga Jónasar“, segir Hjalti að lokum og ítrekar enn og aftur þakkir til þessa velgjörðamanns félagsins.
Deila